Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 17:47:43 (3846)

1996-03-12 17:47:43# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., JónK
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:47]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi. Þar eru flutningsmenn nokkrir hv. þingmenn Alþfl. undir forustu hv. 4. þm. Vestf. Ég fagna því að hv. 4. þm. Vestf. talar fyrir þessari tillögu á afmælisdegi Alþfl. Það bendir til þess að flokkurinn sé þrátt fyrir allt á réttri leið. Hins vegar er, eins og komið hefur fram hjá ræðumönnum á undan mér, kannski ekki mjög mikið kjöt á beinunum þegar farið er að skoða þetta. Tillagan er eingöngu um að skipa nefnd til þess að kanna af hvaða ástæðum fólk flytur burt. Það er fróðlegt út af fyrir sig og ég styð það að þessi nefnd verði skipuð. En ég hef ekki trú á að þetta skipti sköpum og þetta séu mjög harkalegar aðgerðir til að treysta byggð, ekki úti á landsbyggðinni, hins vegar getur verið mjög fróðlegt að vita það af hverju fólk flytur utan af landsbyggðinni. Við teljum okkur auðvitað vita töluvert um það. En úrtakskönnun eins og talað er um í tillögunni væri góðra gjalda verð og það væri ekki mikið fyrirtæki og þyrfti ekki stórar nefndir til að undirbúa slíka könnun aðila vinnumarkaðarins og aðra. Það mætti fá félagsvísindadeild Háskólans til þess að gera slíka könnun og komast að niðurstöðu í því efni, gera könnun á allstóru úrtaki um það.

Það væri fróðlegt að vita það hvers vegna fólk t.d. flytur frá bærilegri atvinnu, víða góðri læknisþjónustu og alveg bærilegri þjónustu utan af landsbyggðinni og hingað suður þar sem lífsskilyrði eru um margt óþægilegri en úti á landi þó að það sé auðvitað misjafnt. Hér er langræði í vinnu, mikil umferð og margir hlutir dýrir í framfærslunni þó að ýmislegt sé ódýrara en úti á landsbyggðinni. En það er langt í frá að það sé vont líf að búa víða úti um landsbyggðina, lífsskilyrði eru þar víða góð. Hins vegar er ég sannfærður um að það er eitt atriði framar öðrum sem gerir það að fólk flytur hingað og ílendist hér. Það er að fólk sækir menntun sína hingað, er hér um árabil í þessu samfélagi og festist í þessu samfélagi og fer ekki heim aftur og því það fær ekki vinnu við sitt hæfi. Ég held að þetta sá langsamlega veigamesta ástæðan og það gerir það auðvitað að hér er miðstöð stjórnsýslunnar, hér er miðstöð verslunarinnar í landinu, hér er miðstöð þjónustu. Þetta skapar ótölulegan fjölda starfa og fjölbreytni í atvinnulífinu þó að atvinnuleysi sé hér staðreynd. Það er meginmálið hvernig er hægt að snúa þróuninni við. Ég hef auðvitað ekki svar við því í stuttu máli og ekki í þessari ræðu hér. Ef ég hefði algild svör væri auðvelt að flytja tillögur um slíkt á Alþingi en það er tilfellið að menn hafa ekki algild svör í þessu efni en menn hafa reynt að byggja upp menntastofnanir úti á landsbyggðinni. Ég er t.d. sannfærður um að Háskólinn á Akureyri er mjög þýðingarmikil stofnun og þýðingarmikið skref til að snúa þessu við. En ég hef heyrt að það eru ekki allir sammála um að það eigi yfirleitt að vera háskóli þar. Ég hef heyrt þær skoðanir að það eigi ekki að dreifa kröftunum í þeim efnum. En ég er á því að það sé eitt af því sem getur snúið þessari þróun við.

Ég minntist á að tillagan væri fróðleg og ég styð hana. Hún er góðra gjalda verð og ég held að ekkert sé á móti því að slík könnun fari fram svo að menn viti af hverju menn yfirgefa jafnvel góðar tekjur og atvinnu úti á landsbyggðinni til að fara hingað í höfuðborgina. Ekki trúi ég því að það sé veðrið. Það er varla veðrið sem gerir það að menn flytja hingað þó að það geti verið staðreyndin einhvers staðar. Ég heyrði menn kvarta mjög undan veðrinu hér og það getur vel verið eins og hv. 14. þm. Reykv. sagði að það sé ef það er tilfellið að fólk er að flytja vegna veðurs þá verði hætt við því að fólk fari að flytja úr landi, flytji héðan úr Reykjavík vegna veðurs. (Gripið fram í: Austur á Vopnafjörð?) Ja, kannski austur á Vopnafjörð, kannski til Norðurlandanna eða eitthvert þangað sem sólin skín lengri hluta úr árinu en hér er.

Ég fagna tillögunni út af fyrir sig. Þó að hún muni ekki marka nein þáttaskil í byggðamálum tel ég þetta þó vera merki þess að Alþfl. og hv. þingmenn hans séu á 80 ára afmæli flokksins farnir að huga að byggðamálum og er það vel.