Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:25:59 (3855)

1996-03-12 18:25:59# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:25]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nýti mér rétt minn til andsvara til að koma á framfæri athugasemd um þessa till. til þál. og vil geta þess að ég tel að hún geti verið mjög gagnleg fyrir þingið. Ég sakna þess kannski örlítið að ekki skuli hafa verið reiknað með því sérstaklega að kannað yrði hvernig almennar aðgerðir hafa bætt stöðu landsbyggðarinnar. Ég nefni sérstaklega jafnvægi í efnahagsmálum og ég nefni raunsæja gengisskráningu, hvernig þessar almennar aðgerðir hafa gagnast landsbyggðinni. Í mörgum tilfellum hafa slíkar aðgerðir haft meiri áhrif og betri á atvinnulíf úti á landsbyggðinni en ýmsar sértækar aðgerðir.

Að því er varðar svo auðlindaskattinn er það alveg augljóst mál frá mínum bæjardyrum séð að slíkur skattur mundi koma fram sem landsbyggðarskattur vegna þess að hann mundi leggjast á atvinnugreinar landsbyggðarinnar öðrum fremur. Það er ekki hægt að tala um þetta sem annarra manna eign vegna þess að þessi auðlind er að sjálfsögðu eign þjóðarinnar og þar með líka sjómannanna sem um hana eru að véla. Til þess að varpa ljósi á þetta vandamál er ekki hægt að nefna það dæmi sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson notaði í þessu sambandi þegar hann talaði um að þessir sjómenn væru að nota annarra manna eign. Sú hugmyndafræði á engan veginn við í þessu tilfelli og varpar engu ljósi á málið.

Ég vil í lokin taka það fram að ég tel að sú hugmynd sem kemur fram í þáltill. að skoða nákvæmlega ástæðurnar fyrir byggðaröskun og helstu aðgerðir til þess að treysta byggð á Íslandi sé af hinu góða og hún muni koma þinginu til góða en ég held að hún muni sérstaklega koma þingmönnum Alþfl. til góða.