Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:30:01 (3857)

1996-03-12 18:30:01# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:30]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að sú aðferð að nýta þjóðareign ákveðnum atvinnugreinum til framdráttar er mjög algeng og viðgengst í mörgum tilfellum eins og t.d. nýting á þjóðgörðum sem ferðaþjónustan nýtir á vissan máta án þess að það sé krafist afgjalds af því og þannig mætti mörg dæmi telja sem eru skyld þessu.

En ég vil aðeins skýra það mál mitt hér að ég taldi að þessi þáltill. mundi gagnast þinginu öllu og kannski þjóðinni allri en einkum og sér í lagi Alþfl. Ég vil nefna sérstaklega að hún gagnast alveg sérstaklega einum af flutningsmönnum þáltill., þ.e. hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni vegna þess að hann er einn af þeim þingmönnum sem opinberlega mæltu gegn því að stofnaður var háskóli á Akureyri og telur að það hafi verið mistök að gera það. Ég hygg að þessi þáltill. ef hún nær fram að ganga og verður samþykkt, muni hún varpa ljósi á það fyrir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hvers vegna slík ákvörðun var réttlætanleg á sínum tíma.