Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:31:48 (3859)

1996-03-12 18:31:48# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:31]

Stefán Guðmundsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og óska hv. þm. og 1. flm. þessarar tillögu, Sighvati Björgvinssyni, og Alþfl. til hamingju með afmælið og biðja þá um leið að minnast þess manns með virðingu sem skrifaði textann.

Hér hafa verið fróðlegar umræður um byggðamál og sá er skrifaði texta Alþfl. hugsaði til þeirra einnig. Það væri hægt að tala langt mál um þau en menn hafa sagt og fleiri en einn að aðgerðirnar sem gripið hefur verið til í byggðamálum hafa mistekist. Það væri fróðlegt að fá frekari skýringu á því hvað menn eru að tala um.

Vissulega hefur ekki allt tekist. En hvernig væri það ef ekkert hefði verið að gert? Hv. 1. flm. þessarar tillögu hafði það verkefni fyrir ekki löngu síðan að leggja mikla vinnu í að skoða hvort það væri rétt að þetta hefði tekist. Niðurstaða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar var einmitt á þann veg að það hefði ekki brugðist. En auðvitað hefur ekki verið tekið nóg á. Og í sömu andrá nefna menn eitt dæmi sem oft hefur verið gripið til til að koma höggi á þá þróun og uppbyggingu og aðgerðir á landsbyggðinni sem er fiskeldið. Eitt ákveðið blað hefur farið offörum í þeim efnum að reyna að koma höggi á þá grein og þá sem að henni hafa staðið. En mér er það í minni þegar þetta blað var að skrifa í forustugrein um þá sem stóðu í fiskeldi í upphafi þessarar atvinnugreinar á Íslandi. Þá var risafyrirsögnin fyrir forustugreininni: ,,Vormenn Íslands að verki.``

Nei. Það er hægt að tala um byggðamál lengi en menn verða að tala um þau af raunsæi og meiri ábyrgð því að það er mikið í húfi.

Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því, virðulegi forseti, hverju við höfum verið að tapa og hvar aukningin í atvinnulífi landsmanna er. Við höfum verið að tapa í hefðbundnum atvinnuvegum okkar sem landsbyggðin hefur byggt á og öll aukningin er í þjónustugreinunum sem við höfum ekki getað tekið við vegna þess að okkur landsbyggðarfólki hefur ekki borið gæfa til þess að koma upp ákveðnum sterkum þjónustukjörnum á landsbyggðinni. Það held ég að 1. flm. þessarar tillögu sé mér sammála um.