Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:37:48 (3862)

1996-03-12 18:37:48# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:37]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum vona að þær spár rætist sem hv. þm. hafði uppi og ekki skal standa á mér að slá saman með honum í slíkar vonir. En við skulum líka gæta þess að það var ekki skortur á lánsfé sem stóð í vegi fyrir framgangi loðdýraræktarinnar á Íslandi því að í sumum tilvikum var veitt lán sem var umfram 100% af stofnfé þó að eigin vinna viðkomandi væri reiknuð þar inn í. Vandinn var miklu fremur sá að stjórnmálamenn fóru sér ekki nógu varlega þegar þeir hvöttu bændur sem voru orðnir mjög illa staddir til að fara með afganginn af sínu umráðafé út í þessa atvinnugrein, lofuðu þeim gulli og grænum skógum og spáðu því eins og ég sagði áðan um einn ágætan samþingmann okkar sem gaf út sérstakan pésa fyrir kosningarnar 1987, að slíka gróðavon væri þarna að finna að innan fjögurra ára yrði stærsta vandamál bænda að telja bara peningana sem þeir mundu hagnast á af þessari atvinnugrein. Þetta er það sem getur gerst þegar vonir, óskir og þrár og brjóstvitið eru látin ráða en þekkingin send út á ystu nöf.