Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:47:02 (3865)

1996-03-12 18:47:02# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:47]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki telja mig í hópi úrtölumanna hvað varðar atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. (StG: Ég var ekki að tala um hv. þm.) Ég fagna því, hv. þm. Ég tel engu að síður að það þurfi að fara varlega og ég fagna því sem hv. þm. sagði. Ég er sannfærður um að hann mun leggja til að farið verði fram af skynsemi. En ég tel að svo brennd séu stjórnvöld af þessari atvinnugrein, og kannski ekki síst þeir sem hafa m.a. staðið fyrir því ábyrgðarhlutverki að lána, að það þurfi að fara gætilega. Ég tel að stjórnarflokkarnir sem þurfa þá að bera ábyrgð á þeim aðgerðum sem snúa að loðdýraræktinni þurfi að tala sig rækilega og vel saman áður en næstu skref eru tekin hvað varðar eflingu hennar, nema það sé alveg tryggt að markaðirnir séu í lagi og þær aðgerðir sem farið er út í séu nokkuð tryggar og öruggar.