Aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 18:48:23 (3866)

1996-03-12 18:48:23# 120. lþ. 105.11 fundur 270. mál: #A aðgerðir til að treysta byggð á Íslandi# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[18:48]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins svara þeim spurningum sem til mín var beint og árétta fáein atriði sem mér finnst ástæða til að koma inn á í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur síðan ég talaði síðast.

Þá vil ég fyrst víkja að því sem nefnt var um að sveitarfélögin væru að eigin frumkvæði að sækjast eftir því að taka að sér ný verkefni. Minnt var á þá væntanlegu breytingu sem fram undan er, þ.e. að sveitarfélögin taki að sér rekstur grunnskóla og átak um sameiningu sveitarfélaga. Ég vil segja að það að sveitarfélögin taki að sér rekstur grunnskóla er engin breyting hvað landsbyggðina varðar. Það er ekki verið að flytja nein verkefni til landsbyggðarinnar sem ekki voru þar fyrir. Það er ekki verið að flytja fjármuni út á land sem ekki voru þar fyrir. Það eina sem verið er að gera er að breyta um húsbændur þeirra sem sjá um fræðsluna. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hver eigi að gera hvað í þessu efni, ríkið eða sveitarfélögin, en hvað landsbyggðina varðar eru útgjöldin þau sömu og verkefnin þau sömu. Breytingin eflir því ekki þrótt landsbyggðarinnar nema menn gefi sér að sveitarfélögin fái meiri tekjur með verkefninu en þau þurfa til að sinna því og geti notað viðbótarpeningana til nýrra verkefna. En ég hygg að menn séu almennt sammála um að svo er ekki. Það er ekki það sem felst í þessari breytingu.

Ég vil undirstrika að þar sem menn fóru út í að endurskipuleggja sveitarstjórnarstigið eins og hér var gerð tilraun til árið 1993 með fækkun sveitarfélaga, eins og gert var í Noregi og í Frakklandi, þá fylgdu því aðrar aðgerðir sem áttu að vera þeim til stuðnings. Samanlagt áttu þessar aðgerðir að efla styrk dreifbýlisins eða landsbyggðarinnar í þessum löndum og þar vó þyngst endurskipulagningin á ríkisvaldinu sjálfu. Í öllum skýrslum sem ég hef lesið um þessar breytingar í Noregi og Frakklandi ásamt öðru efni sem unnið var í sambandi við þá vinnu sem fram fór og var undanfari tillögugerðar um sameiningu sveitarfélaga, var ævinlega skýrt tekið fram að fylgja þyrfti með endurskipulagning á ríkisvaldinu sjálfu, stofnunum ríkisins, hlutverki þeirra og miðstjórnarvaldinu. Þetta vita menn, bæði af reynslu annarra þjóða og innlendra manna sem viðað hafa að sér efni um þetta. Menn hafa því efnið fyrir framan sig og geta tekið sínar pólitísku ákvarðanir. Sú ríkisstjórn sem síðast sat hafði pólitíska skoðun á þessu verkefni. Hún var á móti því að þessi endurskipulagning á ríkisvaldinu færi fram, þ.e. ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. Hún var einfaldlega á móti því. Það er pólitísk afstaða. Það sem mér finnst kannski helst vandinn með þessa tillögu er sá að hún er lögð upp eins og það sé eitthvert hlutlaust efni að styrkja byggð á Íslandi, það sé bara hægt að safna einhverjum upplýsingum og koma svo með tillögur. Þannig er það ekki. Þetta er pólitískt mál. Menn mega ekki draga athyglina frá þem þætti málsins að hér er fyrst og fremst um að ræða spurningu um pólitískar áherslur. Síðasta ríkisstjórn tók þá pólitísku afstöðu að vera á móti því að dreifa ríkisvaldinu og það drap allan hugsanlegan ávinning af sameingingu sveitarfélaga. Það gerði málið gersamlega marklaust.

Ég hef ítrekað vakið athygli á þessu og haldið fram þessu sjónarmiði, bæði í nefndarstarfi og inni á þingi. Þar af leiðandi hef ég útmálað mínar pólitísku áherslur í þessu efni og málið liggur þannig fyrir að menn þurfa einfaldlega að taka pólitíska afstöðu. Það er miklu stærri hlutur í málinu en látið er í veðri vaka með þessari tillögu þar sem hún er lögð upp eins og þetta sé bara eitthvert hlutlaust efni sem menn geti kippt í liðinn ef menn safna einhverjum tilteknum upplýsingum. Þessi nefnd mun aldrei geta svarað þessum pólitísku spurningum. Alþfl. hefur svarað þeim fyrir sitt leyti með þeirri afstöðu sinni að leggjast gegn þriðja stjórnsýslustiginu og taka upp veiðileyfagjald. Þetta eru allt saman pólitískar áherslur sem hafa mikil áhrif á framvindu í byggðaþróun.

Mér finnst varla að maður geti farið út í það að rökræða við hv. þm. Sighvat Björgvinsson um muninn á að leigja hús og að taka upp veiðileyfagjald. Það þarf kannski aðeins að fara yfir það mál, en niðurstaðan af veiðileyfagjaldi er einföld. Hún þýðir að menn ætla að láta suma borga skatt sem aðrir þurfa ekki að borga. Menn ætla að ná inn tekjum fyrir ríkissjóð. Samkvæmt úttekt Dagblaðsins á þessari stefnu Alþfl. þýðir hún, miðað við markaðsverð á leigukvótum í dag, 26 þús. millj. á hverju einasta ári sem sjávarútvegurinn verður að greiða. Þar verða engin ný verðmæti til. Þetta er tekið af þeim peningum sem fyrir eru, þannig að sjávarútvegurinn hefur bara þeim mun minna úr að spila, hvort sem það verða 26 milljarðar á ári eða einhver önnur tala. Það getur ekki styrkt landsbyggðina að taka milljarða kr. á hverju einasta ári frá landsbyggðinni og setja í ríkissjóð í Reykjavík, sem notar þá svo til að borga rekstrarkostnað ríkisins sem að mestu leyti er í Reykjavík. Ég er þeirrar skoðunar að það geti ekki verið styrkur fyrir landsbyggðina, en um það eru skiptar pólitískar skoðanir.

Ég vil benda á eitt atriði sem mér finnst að menn mættu huga að og mætti þá taka með ef reynt verður að vinna upp úr þessari tillögu ályktun sem menn geta sameinast um. Það þarf að opna augu manna fyrir því hvað það kostar íslenska þjóð að búa til þetta höfuðborgarsvæði. Það er vandlega falið í öllum skýrslum hvað það kostar íslenska þjóð marga milljarða á hverju ári að reka þjóðfélagið með þessum hætti en ekki með dreifðari byggð eins og eðlilegt væri, a.m.k. að mínu mati.

Menn verða að taka saman kostnaðinn hér af allri mannvirkjagerðinni, af slysunum, af öllum stóru stofnununum sem enginn ræður við að reka í dag. Hver hefur yfirsýn yfir rekstur þessara stóru ríkisspítala sem eru orðnir alger skrímsli og enginn getur náð tökum á? Bara á síðustu tíu árum hefur ójafnvægið verið þannig að öll fólksfjölgunin á landinu hefur orðið hér. Hefði fjölgað annars staðar jafnmikið og hér, væri um 10--12 þúsund manns færra á höfuðborgarsvæðinu en er í dag. Það er nokkurn veginn sá fjöldi sem býr í Grafarvogi. Og hafa menn kynnt sér hvað Grafarvogur kostar? Það eru tugir milljarða sem menn hefðu að verulegu leyti getað komist hjá að leggja út í sem kostnað, ef það hefði verið jafnvægi í byggðaþróuninni.

Virðulegi forseti. Tíma mínum er lokið og ég læt hér staðar numið.