Gjaldskrá Pósts og síma

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 13:40:19 (3876)

1996-03-13 13:40:19# 120. lþ. 106.1 fundur 350. mál: #A gjaldskrá Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:40]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er gott að vera búinn að fá nútímalega þingkonu í salinn og veitir sannarlega ekki af í þessa gömlu stofnun.

Fsp. sem liggur fyrir er þessi: Hefur Póstur og sími einhver áform um að taka upp eina gjaldskrá fyrir símtöl innan lands?

Þessi spurning hefur orðið mjög áleitin eftir að umræður um að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag komust á lokastig nú á dögunum og eftir að frv. var lagt fram. Hafa ýmsir alþingismenn átt fundi með forsvarsmönnum Pósts og síma einmitt um gjaldskrármálin og sett sig vel inn í þau mál sem þar liggja til grundvallar og er ekkert nema gott um það að segja. Auðvitað er rétt hjá hv. þm. að pólitískur þrýstingur hefur verið, ég veit ekki hvort ég á að segja svo áratugum skiptir, um að jafna þann mun sem hefur verið á langlínusamtölum og innanlandssamtölum. Er nú svo komið að gjaldsvæðin eru einungis þrjú og þegar hefur verið ákveðið að fækka þeim í tvö sem næsta skref sem ég tel mjög mikils virði. Jafnframt held ég að það sé óhjákvæmilegt að vekja athygli á því að athugun liggur fyrir á því hver sé meðalnotkun símnotenda eftir kjördæmum. Það kemur í ljós að meðalnotkun á talsíma er svipuð á Reykjavíkursvæðinu og úti á landi sem byggist auðvitað á því að það eru fleiri skref innifalin úti á landi en hér á Reykjavíkursvæðinu eða helmingi fleiri. Ef sú leið verður farin að taka upp eina gjaldskrá fyrir öll símtöl þá mundu slík innifalin skref hverfa því það verður merkingarlaust að hafa þau. Jafnframt liggur það ljóst fyrir að þunginn af gjaldheimtunni mun færast til í einhverjum mæli. Hann mun áreiðanlega færast frá atvinnurekstrinum yfir á einstaklingana, á heimilin. Það mun verða kostnaðartilfærsla frá fyrirtækjum yfir á heimili ef landið verður gert að einu gjaldsvæði. Ég hygg að allir séu sammála um það sem hafa sett sig inn í þessi mál. Eigi að síður geta menn talið að fyrir því geti verið rök. Það er annað mál. Eins og sakir standa er næsta skref, sem tekið verður, að fækka gjaldsvæðum niður í tvö sem hefur auðvitað verulega lækkun í för með sér og erum við þá kannski fyrst og fremst að tala um íbúa á Vestfjörðum, Austurlandi og Norðurlandi sem þurfa að hringja til Reykjavíkur. Svo auðvitað Reykvíkinga sem þurfa að flytja yfir á hina sömu staði, þ.e. ef eitt gjaldsvæði er á milli þá er núna greitt hærra gjald en ef um samliggjandi gjaldsvæði er að ræða en hugmyndin er að fækka gjaldsvæðum niður í tvö og halda áfram í átt til fulls jafnaðar eins og hefur verið stefna Pósts og síma.

Það að breyta landinu einnig í eina gjaldskrá hefur erfiðleika í för með sér í sambandi við línuleigu og ýmislegt því líkt sem skýrir auðvitað betur að kostnaðartilfærslan færist yfir á einstaklingana, yfir á heimilin frá atvinnurekstrinum auk þess sem ýmsar spurningar vakna í sambandi við samkeppnisstöðu Pósts og síma síðar meir þegar talsíminn verður gefinn frjáls eftir tvö ár.

Síðari spurningin er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Veitir stofnunin stórum fyrirtækjum afslátt af auglýstum töxtum? Ef svo er, hversu mikill er afslátturinn í prósentum og hvað er um háar upphæðir að ræða á síðustu árum, hvaða skilyrði þarf fyrirtæki að uppfylla til að geta fengið afslátt?

Svar við þessu er að Póstur og sími veitir ekki afslátt af auglýstum töxtum fyrir símaþjónustu.