Gjaldskrá Pósts og síma

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 13:52:31 (3882)

1996-03-13 13:52:31# 120. lþ. 106.1 fundur 350. mál: #A gjaldskrá Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:52]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þau svör sem ég hef fengið. Ég spyr hins vegar hæstv. ráðherra: Af hverju á að taka þetta í skrefum? Er of mikið mál að stíga skrefið til fulls? Er það of mikið mál? Við verðum að átta okkur á nútímanum sem við lifum í og leyfa öllum notendum og þjónustuaðilum að sitja við sama borð bæði hvað varðar almenn samtöl og ekki síst Internet-þjónustuna sem er að verða gífurlega mikilvæg, sérstaklega fyrir landsbyggðarfólkið. Ég nefni hér fjarnám og fjarvinnu ýmis konar sem er ítrekað búið að segja hér í þessum sölum að skipti miklu máli.

Ég vil taka undir hugmynd hv. þingkonu Arnbjargar Sveinsdóttur sem sagði að það ætti að skoða eitt gjaldskrársvæði þegar Póstur og sími yrði hlutafélagavæddur. Það var einmitt á þeim nótum sem ég talaði um það mál hér um daginn. En ég spyr: Af hverju má ekki stíga þetta skref strax? Það mæla öll rök með því. Og ég held að tíminn skipti okkur máli. Eftir því sem við gerum það fyrr þeim mun mikilvægara verður það. Við verðum að leyfa fólki að sitja við sama borð hvað þetta varðar. Ég átta mig ekki á því að það þurfi endilega að treina þetta og taka það í mörgum skrefum. Hæstv. ráðherra er þekktur fyrir að taka rösklega á mörgum málum. Ég nefni þegar við tókum í gegn ríkisábyrgð á Hvalfjarðargöngunum fyrir jól. Það var nú ekki mikið mál. Ég spyr því, af hverju má ekki leggja smá forgang í þetta líka? (Gripið fram í: Heyr! Heyr!)