Gjaldskrá Pósts og síma

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 13:54:29 (3883)

1996-03-13 13:54:29# 120. lþ. 106.1 fundur 350. mál: #A gjaldskrá Pósts og síma# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[13:54]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykn., Siv Friðleifsdóttir, spurði mig hvers vegna væri ekki hægt að taka fast á þessu máli og leysa það í eitt skipti fyrir öll. Það má auðvitað spyrja um það því mér heyrðist áðan á hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, 4. þm. Austurl., að hann þyrfti ekki annað en að flytja smá þáltill. og þá gerðist það af sjálfu sér að símkostnaður jafnaðist á landinu. Það má kannski spyrja hvers vegna hann jafnaði ekki símkostnaðinn til fulls á meðan flokksbróðir hans hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var ráðherra úr því að ekki þurfti nema smá tillöguflutning til þess arna. En sennilega eru nú málin ekki alveg svona einföld. Ég hélt raunar líka að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson væri það kunnugur þingsögunni að hann hefði einhverjar hugmyndir um að símamál hefðu verið rædd hér áður en hann settist á hið háa Alþingi.

Auðvitað er málið ekki svo einfalt. (Gripið fram í.) Er nú hv. þm. Svavar Gestsson orðinn eitthvað órólegur? Það er gott að sjá lífsmark með hv. þm. Auðvitað er það heldur ekki rétt sem formaður fjárln. sagði hér að fjárfestingarkostnaður skipti ekki máli í sambandi við gjaldskrár Pósts og síma og gaf í skyn að NATO hefði borgað allan ljósleiðarann. Ekki var það nú svo þó þeir hæstv. ráðherrar sem þá voru, Svavar Gestsson og aðrir slíkir hafi séð til þess að NATO kom vel að þeim málum að byggja upp fjarskiptakerfið hér á landi þó að ég hafi tekið eftir því að Steingrímur J. Sigfússon hafi haft lágt um það þegar hann var fyrir norðan. Hann hefur á hinn bóginn hrósað sér þeim mun meira af því annars staðar.

Herra forseti. Ég gleymdi að víkja að því hér áðan að það stendur auðvitað til að sami taxti verði á Interneti um allt land.