Endurskoðun íþróttalaga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:09:56 (3888)

1996-03-13 14:09:56# 120. lþ. 106.3 fundur 347. mál: #A endurskoðun íþróttalaga# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:09]

Fyrirspyrjandi (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn þessi er borin fram vegna þeirrar miklu og ánægjulegu þróunar sem hefur átt hefur sér stað að undanförnu innan íþróttahreyfingarinnar. Segja má að um hugarfarsbreytingu sé að ræða í afstöðu til íþróttastarfs og tengsla þess við almennt skóla- og uppeldisstarf í landinu. Hið opinbera hefur ekki fylgt þessari viðhorfsbreytingu eftir, hvað þá stuðlað að henni með mótun löggjafar og markvissri stýringu á fé til verkefna í íþróttastarfi. Við svo búið má ekki standa lengur. Núgildandi íþróttalög eru frá 1956 og það er fyrir löngu tímabært að breyta þeim og endurmeta í því sambandi stefnu stjórnvalda í íþróttamálum.

Svavar Gestsson, fyrrv. menntmrh., skipaði í desember 1988 nefnd til að gera tillögu að stefnumótun á sviði íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamála til ársins 2000. Nefndin skilaði áliti í janúar 1991. Í júní 1992 skipaði Ólafur G. Einarsson, þáverandi menntmrh., nefnd til að endurskoða íþróttalögin. Sú nefnd skilaði áliti í janúar 1993 og fjallaði m.a. um markmið íþróttalaga, stjórn íþróttamála, íþróttahéruð, íþróttanefnd, íþróttasjóð og skólaíþróttir. Síðasta febrúar kom út rit á vegum hæstv. menntmrh. Björns Bjarnasonar sem ber heitið Menning, menntun, forsenda framtíðar. Þar stendur á bls. 16 að frumvarp til nýrra íþróttalaga verði flutt á Alþingi.

Í grannlöndum okkar hafa stjórnvöld mótað og útfært stefnu á fjölmörgum sviðum íþróttalífs þar sem sett eru fram markmið í þróun almennings- og skólaíþrótta annars vegar og keppnisíþrótta hins vegar. Hið opinbera veitir síðan fé til íþróttamála í samræmi við uppsett markmið í því skyni að stýra þróuninni í þá átt sem pólitískt samkomulag er um. Ekki er annað vitað en að íþróttahreyfingin bæði hér og í grannlöndum okkar sé þess mjög fýsandi að þannig verði staðið að málum að því tilskyldu að fullt samráð sé haft við hana. Hætt er við að stjórnvöld hér á landi séu að verða hemill á þá jákvæðu þróun sem hafin er. Brýna nauðsyn ber til þess að hlúa að samstarfi skóla og íþróttafélaga, skapa fjölskyldum tækifæri til sameiginlegra íþróttaiðkana og félagsstarfs, efla menntun íþróttakennara og leiðbeinenda og setja fram skýr markmið opinbers fjárstuðnings í íþróttastarfið í öllum þess myndum. Því spyr ég hæstv. menntmrh.: Hvenær má vænta þess að ríkisstjórnin leggi fram frv. til nýrra íþróttalaga? Og í öðru lagi: Hefur átt sér stað frekari endurskoðun á meginstefnu stjórnvalda um þróun íþróttastarfs í landinu en fyrir lá í áliti nefndarinnar um ný íþróttalög í janúar 1993?