Endurskoðun íþróttalaga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:17:56 (3892)

1996-03-13 14:17:56# 120. lþ. 106.3 fundur 347. mál: #A endurskoðun íþróttalaga# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi þá fyrirspurn hvort það sé ætlunin hugsanlega með nýjum lögum að ríkisvaldið fari að hlutast til um það hvernig fjármunum sé varið úr þeim sjóðum sem íþróttahreyfingin hefur yfir að ráða ef ég skildi það rétt, þá verður það ekki. (BH: Opinberum framlögum.) Hvernig opinber framlög eru skilgreind til íþróttamála er náttúrlega matsatriði hverju sinni. Við höfum Íþróttasjóð. Eins og hv. þm. Svavar Gestsson gerði grein fyrir, þá er hlutverk hans gjörbreytt frá 1989 og síðan hefur íþróttahreyfingunni verið veitt aðild að tekjustofnum eins og lottói og öðru slíku og veitt heimild til þess að nýta þar fjármuni. Að sjálfsögðu kann það að vera matsatriði hverju sinni hvað Alþingi eða fjárveitingavaldið á að skipta sér mikið af því hvernig slíkum fjármunum er varið. Ég tel að það sé mjög hæpið að fara inn á þær brautir í sambandi við setningu íþróttalaga.

Eins og fram hefur komið hafa þessi lög verið til endurskoðunar á undanförnum áratugum án þess að menn hafi komist að endanlegri niðurstöðu. Og frv. eins og það liggur fyrir núna er ekki í endanlegri mynd. Mér finnst að það sé ekki rétt af mér að gefa vísbendingar um það að ég muni gera tillögur þess efnis að ríkisvaldið ætti að skipta sér meira af því hvernig þessu fé er varið. Ég lít þannig á að lög af þessu tagi eigi að vera rammi utan um hina frjálsu starfsemi sem síðan á að gefa svigrúm til að þróast á eigin forsendum. En auðvitað þarf að vera eins og hér hefur komið fram og vilji stendur til einhver opinber þátttaka með einu eða öðru móti. En það munum við væntanlega fá tækifæri til að ræða nánar næsta haust þegar frv. verður lagt fram.