Kærumál vegna undirboða

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:20:23 (3893)

1996-03-13 14:20:23# 120. lþ. 106.4 fundur 348. mál: #A kærumál vegna undirboða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 606 fyrirspurn til hæstv. iðnrh. um kærumál vegna undirboða. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Telur ráðherra rétt að beita sér fyrir breytingum á þeim reglum sem í gildi eru um kærur vegna undirboða sem skekkja samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar?``

Tilefni fyrirspurnarinnar er margþætt má segja. Á undanförnum árum hefur íslenskur iðnaður aftur og aftur reynt að leita réttar síns gagnvart hugsanlegum undirboðum framleiðslufyrirtækja erlendis. Þar hafa menn leitað til stjórnvalda, þeir sem eru að framleiða neysluís hér á landi, þeir sem hafa með að gera mölun á hveiti hér á landi og þeir sem hafa með að gera skipasmíðar og skipaviðgerðir. Þeir hafa aftur og aftur á undanförnum missirum snúið sér til stjórnvalda og farið fram á það að stjórnvöld á Íslandi geri eitthvað til að verja þessar iðngreinar andspænis ósanngjarnri erlendri samkeppni. Og við höfum úrræði í þessum efnum. Á síðasta kjörtímabili voru sett lög um þessi mál og á grundvelli þeirra laga var sett reglugerð. Ýmsir eins og t.d. ég og núv. hæstv. félmrh. vorum þá þeirrar skoðunar að ferlið sem gert var ráð fyrir í lögunum og reglugerðunum væri allt of flókið og dygði ekki fyrir íslenskan iðnað. Það væri svo seinvirkt að það hrykki hvergi nærri til. M.a. af þeim ástæðum er það síðan að Samtök iðnaðarins hafa núna ítrekað snúið sér til iðnn. Alþingis út af þessu máli. Staðreyndin er sú að iðnn. Alþingis hafði mikið með það að gera eins og hæstv. iðnrh. veit hvernig þessir hlutir voru þróaðir á síðasta kjörtímabili. Hún sinnti því af þó nokkrum áhuga og dugnaði eftir því sem aðstæður leyfðu.

Dæmi um það hvernig á þessum málum er tekið er að 22. júlí 1994 skrifuðu Samtök iðnaðarins og kærðu vegna ríkisstyrkja og undirboða í skipasmíðum og skipaviðgerðum. Þetta var 22. júlí 1994. Svar barst frá fjmrn. dagsett 23. janúar 1996, þar sem fjmrn. segir við Samtök iðnaðarins að ekki séu efni til þess að taka á málinu og í ljósi ofangreindra aðstæðna sem raktar eru sé málinu vísað frá. Af þessu tilefni spyr ég hæstv. ráðherra:

Er ekki nauðsynlegt að hans mati sem fulltrúa iðnaðarins í ríkisstjórninni að breyta þeim reglum sem eru í þessum efnum hér á landi sem heimila stjórnvöldum að taka á því þegar erlend fyrirtæki beita ósanngjörnum undirboðum í samkeppni víð íslenskan iðnað?

Þessari fyrirspurn þætti mér vænt um að hæstv. iðnrh. svaraði.