Kærumál vegna undirboða

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:23:48 (3894)

1996-03-13 14:23:48# 120. lþ. 106.4 fundur 348. mál: #A kærumál vegna undirboða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:23]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur lagt fram fyrirspurn á þskj. nr. 606 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Telur ráðherra rétt að beita sér fyrir breytingum á þeim reglum sem í gildi eru um kærur vegna undirboða sem skekkja samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar?``

Áður en ég vík að sjálfri fyrirspurninni vil ég taka fram eftirfarandi:

1. Það er grundvallaratriði í stefnu núverandi ríkisstjórnar að fyrirtækin njóti í hvívetna jafnræðis og samkeppnishindrunum sé rutt úr vegi. Hlutverk hins opinbera er að skapa eðlileg og sanngjörn samkeppnisskilyrði en ekki að veita einstökum atvinnugreinum beinan rekstrarstuðning. Í samræmi við það er á alþjóðavettvangi barist gegn hvers kyns ríkisstuðningi við atvinnugreinar sem raska samkeppnisstöðu. Þróunin hefur verið í þessa átt, bæði innan lands og svo í alþjóðlegum samningum, svo sem EES-samningnum og GATT-samningnum.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að ákvæði um undirboðs- og jöfnunartolla gildir ekki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar gilda á hinn bóginn almenn samkeppnisákvæði.

2. Rétt er að geta þess að framkvæmd laga um undirboð og jöfnunartolla heyrir undir fjmrn. Nefnd sem fjallar um undirboðs- og jöfnunartolla hefur starfað á vegum þess ráðuneytis síðan um mitt ár 1994 eins og fram kom í inngangi hv. þm. og hefur um það verið gefin út sérstök reglugerð.

3. Reglur um undirboðs- og jöfnunartolla hér á landi sem settar voru 1994 byggja að meginstofni til á þeim alþjóðasamningum sem í gildi eru um þetta efni, svo sem GATT-samningnum.

Fyrirspyrjandi spyr hvort iðnrh. hyggist beita sér fyrir breytingu á reglum um meðferð kæra vegna meintra undirboða. Eins og þegar hefur komið fram er þessi málaflokkur í höndum fjmrn. Mér er kunnugt um að í kjölfar nýs GATT-samkomulags þarf að endurskoða núgildandi reglugerð um undirboðs- og jöfnunartolla þannig að samræmis sé gætt við núgildandi GATT-samning. Þannig er ekki um grundvallarbreytingu að ræða heldur breytingar á framkvæmd. Á næstunni mun fara í gang á vegum fjmrn. starf vegna þessara breytinga. Iðnrn. mun fylgjast með því og á fulltrúa í þeirri nefnd sem mun vinna að undirboðs- og jöfnunartollum. Ég er sammála hv. þm. að á þessu þarf að verða breyting. Það sem þarf að gerast fyrst og fremst að mínu viti er að það þarf að stytta þennan tíma ef nokkur kostur er þannig að fyrirtæki búi ekki eins lengi við þessa óvissu.

Þau tvö mál sem hv. þm. tók sérstaklega fram, Kornaxmálið svokallað og ísmálið. Kornaxmálið er sem betur fer leyst. Ísmálið er í sérstakri skoðun og ég á von á því að það muni líka leysast. En það er rétt hjá hv. þm. að tíminn sem fer í þetta er of langur og fyrirtækin búa á meðan við mikla óvissu. Þann tíma þarf að stytta.