Kærumál vegna undirboða

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:28:44 (3896)

1996-03-13 14:28:44# 120. lþ. 106.4 fundur 348. mál: #A kærumál vegna undirboða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:28]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það sem ég vildi fyrst og fremst gera ljóst í fyrri hluta svars míns við fyrirspurninni áðan var að það væri skýrt að fjmrn. færi með yfirstjórn málaflokksins sem að þessu leyti snýr að samkeppnismálum. En með því er ég ekki að ásaka fjmrn. að það hafi ekki staðið sig. Ég þekki þessi mál og það veit ég að hv. þm. gerir líka. Þeir erlendu aðilar sem við þurfum að eiga samskipti við geta því miður dregið menn mjög á svari við þeim fyrirspurnum sem berast. Það er vel þekkt í Snorramálinu sem hv. þm. vitnaði í áðan og svar barst ekki við fyrr en í lok janúar. Það er á alþjóðavettvangi sem við þurfum líka að ná niðurstöðu um það hversu langan tíma menn hafa til að gera grein fyrir þeim kærum sem koma upp.

Iðnrh. á fulltrúa í samráðsnefndinni um innheimtu undirboðs- og jöfnunartolla. Iðnrh. á líka mann í þeirri nefnd sem núna er að endurskoða þessa reglugerð. Ég tek undir með hv. þm. að ég legg höfuðáherslu á að það verði bæði gagnvart þeim aðilum sem við erum að takast á við og eins hér af innlendum aðilum reynt að stytta þennan tíma eins og nokkur kostur er þannig að fyrirtækin sem við óvissuna búa þurfi að gera það í sem allra skemmstan tíma.