Skipasmíðaiðnaðurinn

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:30:35 (3897)

1996-03-13 14:30:35# 120. lþ. 106.5 fundur 349. mál: #A skipasmíðaiðnaðurinn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili komu málefni skipasmíðaiðnaðarins mjög oft til umræðu. Staðreyndin er sú að þar stóðu mál lengi vel ákaflega illa. Ég tel að það hafi fyrst og fremst verið vegna þess að menn hafi ekki treyst sér til að veita íslenskum skipasmíðaiðnaði á eðlilegan hátt sambærileg skilyrði og skipasmíðaiðnaðurinn í samkeppnislöndunum hefur búið við. Það var ekki fyrr en á síðasta hluta síðasta kjörtímabils að stjórnvöld fengust til þess að taka á þessu máli og það tel ég að hafi verið gert allmyndarlega þann tíma sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var iðnrh. og ég veit að hann naut þar stuðnings manna úr öllum flokkum bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Hann gaf yfirlýsingu á Alþingi 21. des. 1994 um aðgerðir til að jafna stöðu skipaiðnaðarins og þar greindi hann frá því til hvaða aðgerða væri ætlunin að grípa til að jafna stöðu skipaiðnaðarins. Þar kom fram að ætlunin var sú að vera með tiltekna stuðningsmöguleika við skipasmíðaiðnaðinn meðan 7. tilskipun ESB um skipasmíðar væri í gildi á EES-svæðinu öllu en nú er gert ráð fyrir því að sú tilskipun verði í gildi a.m.k. til 1. okt. nk. Því miður hefur ekkert annað gerst í þessu máli síðan en það að ráðherrann gaf þessa yfirlýsingu og í staðinn er íslenskum skipasmíðafyrirtækjum vísað á svokallaða kæruleið. Það er sagt við fyrirtækin: Þið eigið að sanna í hverju tilviki hvort þið eruð beitt ósanngjörnum undirboðum af erlendum skipasmíðafyrirtækjum sem eru að keppa um verkefnin við ykkur. Reynslan af þessu er slæm. Hún er svo slæm að Samtök iðnaðarins sneru sér sérstaklega til iðnn. Alþingis með bréfi sem er dagsett 19. des. 1995 þar sem fram kemur að þau telji kæruleiðina afar erfiða og vilja frekar fara þessa almennu leið og segja í lok bréfsins:

,,Samtök iðnaðarins telja og leggja á það þunga áherslu að íslensk stjórnvöld eigi að framlengja stuðning þann sem hefur verið veittur til skipaiðnaðarins hér á landi enda er ljóst að það munu önnur EES-ríki gera.``

Og því spyr ég hæstv. ráðherra: Mun ráðherra beita sér fyrir því að skipasmíðaiðnaðurinn hér á landi njóti stuðnings eins og í öðrum EES-ríkjum samkvæmt 7. skipasmíðatilskipun Evrópusambandsins?