Skipasmíðaiðnaðurinn

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:40:12 (3900)

1996-03-13 14:40:12# 120. lþ. 106.5 fundur 349. mál: #A skipasmíðaiðnaðurinn# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:40]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Svavari Gestssyni fyrir að hreyfa þessu máli. Málefni skipaiðnaðarins hafa verið til umræðu á Alþingi af og til á undanförnum árum og þá jafnan vegna hinna miklu erfiðleika sem steðjað hafa að þessari iðngrein, verkefnasamdráttur, fækkun starfsmanna og miklir erfiðleikar í rekstri skipasmíðastöðvanna. En síðasta ríkisstjórn greip til margháttaðra aðgerða eins og hv. þm. nefndi til að rétta hag þessarar mikilvægu iðngreinar. Þær aðgerðir hafa skilað árangri, svo góðum að nú er mikil uppsveifla í greininni, næg verkefni og fjölgun starfsmanna og reyndar skortur orðinn á járniðnaðarmönnum. En eftir sem áður tel ég rétt að það verði veittir styrkir til nýsmíða og endurbóta með hliðsjón af 7. tilskipun ESB á meðan helstu samkeppnisþjóðir okkar ríkisstyrkja þennan iðnað á forsendum þessarar sömu tilskipunar sem vonandi sér reyndar fyrir endann á. Það er rétt sem hæstv. iðnrh. sagði áðan að á síðasta ári notuðu fyrirtækin aðeins 2/3 hluta þeirrar upphæðar sem ætluð var til þessara styrkja á árinu 1995 en það á sér sínar skýringar. Skýringin er sú fyrst og fremst að ráðuneytið setti svo stífar reglur um þessa styrki að stærsti hluti verkefnanna var ekki styrkhæfur. Reglurnar voru þannig að aðeins nýsmíði yfir 100 brúttótonnum og endurbætur á skipum yfir 1.000 brúttótonnum áttu rétt á styrk úr þessum potti. Í dag eru nokkrir útgerðarmen að huga að nýsmíði 60--80 tonna vertíðarbáta. Þetta eru afar hentug verkefni fyrir íslenskar skipasmíðastöðvar og þessi styrkur getur ráðið úrslitum um það að þessi nýsmíði verði unnin hér á landi. Ég sé þess vegna fulla ástæðu til þess að þessum styrkjum verði haldið áfram, reglunum verði breytt þannig að minni nýsmíðar eigi möguleika á styrkjum og einnig hvað varðar endurbæturnar að það verði ekki miðað við 1.000 tonna skip.