Mengunarhætta vegna olíuflutninga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:50:03 (3904)

1996-03-13 14:50:03# 120. lþ. 106.6 fundur 353. mál: #A mengunarhætta vegna olíuflutninga# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:50]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt eins og kemur fram í máli hv. fyrirspyrjanda, hv. 4. þm. Austurl., sem beinir til mín fyrirspurn á þskj. 613 í þremur liðum, að mál af því tagi sem hann veltir fyrir sér í fyrirspurn þessari minna stöðugt á sig þótt þau séu ekki hér við strendur, a.m.k. ekki með þeim hætti sem gerst hefur í kringum okkur. Það er vissulega nauðsynlegt að halda vöku sinni og reyna að gæta þess að viðbúnaður sé ávallt eins og við best getum búið hjá okkur.

Svar mitt við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er að búnaður til að bregðast við stórfelldri olíumengun við strendur landsins eins og orðið hefur í tvígang með stuttu millibili við Bretlandseyjar er ekki til staðar hér á landi. Olíuflutningaskip af þeirri stærð sem strandaði við suðvesturströnd Englands nýverið sigla því betur ekki nærri Íslandsströnd. Á síðasta ári fluttu 34 erlend olíuflutningaskip um 565 þús. tonn af olíu hingað til lands. Minnsti farmurinn var rúm 2.000 tonn og sá stærsti tæp 30.000 tonn. En flestir farmarnir voru af stærðinni 1.500--1.800 þús. tonn. Til samanburðar hafa skip þau sem strandað hafa fyrst við Hjaltlandseyjar 1993 og nú síðast við suðvesturströnd Englands svo sem hv. fyrirspyrjandi minnti á verið með um 150.000 tonn af olíu í farmi. Búnaður Hollustuverndar ríkisins er miðaður við að hægt sé að fást við öll algengustu tilvik olíumengunar í sjó hér við land og fyrstu viðbrögð ef um er að ræða meiri háttar mengunaróhöpp sem eðlilega eru mun minni líkur á að eigi sér stað. Við bestu skilyrði getur olíuupptökubúnaður stofnunarinnar dælt allt að 50--60 tonnum af olíu á klukkustund. Ef fyrirsjáanlegt er að óhappið er stærra en svo að búnaður stofnunarinnar ráði við það er reiknað með að sækja aðstoð erlendis frá. Ísland er, ásamt Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð, aðili að svokölluðu Kaupmannahafnarsamkomulagi en um er að ræða samkomulag milli þjóða um gagnkvæma aðstoð ef kemur til mengunaróhapps sem búnaður viðkomandi lands ræður ekki við.

Á undanförnum árum hefur kerfisbundið verið unnið að því að koma upp viðeigandi mengunarvarnabúnaði en uppbyggingunni er enn ekki að fullu lokið. Áætlað er að koma upp um 1.000 metrum af flotgirðingu en nú eru til um 600 metrar af flotgirðingu í umsjá Hollustuverndar ríkisins. Búnaður Hollustuverndar er byggður upp með það í huga að samtengja hann við þann búnað sem sækja þarf til hinna Norðurlandanna verði um stærri mengunaróhöpp að ræða. Ísland er einnig aðili að alþjóðasamningi á vegum Alþjóðasiglingarmálastofnunarinnar, svokölluðum OPRC-samningi sem byggir á sömu sjónarmiðum og Kaupmannahafnarsamkomulagið. Framkvæmd þess samnings er þó enn í mótun.

Við 2. tölul. fyrirspurnarinnar er það að segja að Hollustuvernd ríkisins samræmir aðgerðir og annast yfirstjórn aðgerða verði olíumengun á sjó utan hafnarsvæða til að draga úr slíkri vá í samræmi við ákvæði VII. kafla laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Hollustuvernd annast yfirstjórn aðgerða ef slys ber að höndum í samvinnu við Landhelgisgæslu Íslands og Hafnamálastofnun ríkisins í þeim tilvikum er mengunarslys verða utan hafnarsvæða. Verði mengunaróhöpp innan hafnarsvæða er það viðkomandi sveitarfélag sem ber ábyrgð á hreinsunaraðgerðunum.

Svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar er: Í samræmi við áðurnefnt Kaupmannahafnarsamkomulag hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda tekið þátt í sameiginlegum æfingum og námskeiðum landanna og til er viðbragðsáætlun um flutning á búnaði ef til óhapps kemur hér á landi. Þessir fulltrúar okkar hafa síðan tekið þátt í æfingum og kynnt búnaðinn í þeim höfnum landsins sem hafa mengunarvarnabúnað. Þess má einnig geta að ríkissjóður hefur lagt sveitarfélögunum til fé til að koma upp búnaði við helstu hafnir landsins til samnýtingar í öðrum höfnum. Þá hefur verið unnið að kortlagningu landsvæða og siglingaleiða með tilliti til áhættuþátta og samhliða því gerð viðeigandi viðbragðsáætlun til að grípa til ef kemur til mengunaróhapps. Einnig hafa farið fram viðræður við hagsmunaaðila um möguleika á að setja sérstakar reglur um siglingaleiðir olíuskipa hér við land og er þess vænst að niðurstaða náist sem fyrst í það mál. Má kannski að lokum segja að það sé e.t.v. hluti af því sem hæstv. samgrh. var að ræða hér um áðan og ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að það er auðvitað nauðsynlegt að gott samstarf og samkomulag, góð samvinna og samræming sé milli þessara ráðuneyta varðandi svo mikilvægan áhættuþátt sem er til umræðu.