Sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:20:06 (3913)

1996-03-13 15:20:06# 120. lþ. 107.1 fundur 389. mál: #A sameining Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda# (breyting ýmissa laga) frv. 73/1996, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[15:20]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á ýmsum lögum vegna sameiningar Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda í Bændasamtök Íslands. Þetta frv. er flutt á þskj. 684 og er 389. mál þingsins. Frv. er samið í landbrn. Um tilurð þess vísast til 4. gr. laga nr. 130/1994 en samkvæmt þeim lögum voru Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda sameinuð í ein heildarsamtök bænda sem hafa hlotið nafnið Bændasamtök Íslands og hafa þau samtök eins og kunnugt er þegar tekið við öllum réttindum og skyldum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda.

Í áðurnefndri 4. gr. laga nr. 130/1994 er kveðið á um það að tekin skulu til endurskoðunar öll lagaákvæði þar sem vísað er til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda og er frv. það sem hér liggur fyrir árangur af því starfi. Við samningu frv. var haft samráð við Bændasamtök Íslands. Í frv. eru lagðar til breytingar á 33 lögum en langflest þeirra eru á framkvæmd landbrn.

Þegar hafa verið lögð fyrir þingið tvö önnur frumvörp sem rekja má til breytinga á yfirstjórn samtaka bænda og er þar átt við frv. til laga um breytingu á lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. sem þingið samþykkti sem lög í síðustu viku og frv. til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra sem hv. landbn. þingsins hefur nú til meðferðar. Í flestum tilvikum fela breytingar þær sem hér eru lagðar til ekki annað í sér en að orðin Bændasamtök Íslands koma í hin ýmsu lög í stað Stéttarsambands bænda eða Búnaðarfélags Íslands. Því er ekki um að ræða efnisbreytingar á gildandi lögum enda rúmast slíkar breytingar ekki í því formi sem er á þessu frv.

Þá ber líka að nefna að sum lögin eru til heildarendurskoðunar á vegum ráðuneytisins þótt sú vinna sé ekki langt á veg komin. Á það t.d. við um skógræktarlögin, landgræðslulögin, lög um Stofnlánadeild landbúnaðarins, jarðræktarlögin og búfjárræktarlögin.

Hæstv. forseti. Ég vek athygli á 11. gr. frv. sem fjallar um breytingar á lögum nr. 89/1966, um Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Stjórn Framleiðnisjóðs er í dag skipuð fimm mönnum og er í 11. gr. frv. lagt til að svo verði áfram. Samkvæmt lögunum eins og þau eru í dag tilnefna Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og stjórn Búnaðarbanka Íslands og stjórn Framkvæmdastofnunar hver um sig einn mann í stjórnina en landbrh. skipar einn án tilnefningar og er sá formaður stjórnar. Sá háttur hefur verið hafður á frá því að Framkvæmdastofnunin var lögð niður að forsrh. hefur tilnefnt einn mann í stjórn Framleiðnisjóðs enda ekki sjálfgefið að valdheimildir Byggðastofnunar, sem tók þó við hluta af verkefnum Framkvæmdastofnunar, næðu til þess að tilnefna í stjórnina.

Eins og ég sagði áðan þykir rétt að stjórn Framleiðnisjóðs verði áfram skipuð fimm mönnum og er í frv. gert ráð fyrir því að Bændasamtök Íslands tilnefni tvo fulltrúa og er það í sjálfu sér óbreytt frá því sem nú er, sbr. 2. gr. laga um Framleiðnisjóð, sbr. lög nr. 130/1994. Jafnframt er gert ráð fyrir að landbrh. skipi tvo menn án tilnefningar og verði annar þeirra formaður stjórnarinnar. Þá er gert ráð fyrir að Rannsóknarráð Íslands fái tilnefningarrétt í stjórnina og verður að líta svo á að slíkt fyrirkomulag samræmist vel lögmætu hlutverki Framleiðnisjóðs landbúnaðarins eins og því er lýst í 1. gr. laganna en það er að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði og atvinnurekstrar á bújörðum og má jöfnum höndum styrkja rannsóknir og framkvæmdir sem miða að lækkun framleiðslu- og dreifingarkostnaðar, svo og framkvæmdir er stefna að því að samræma landbúnaðarframleiðsluna þörfum þjóðarinnar miðað við markaðsaðstæður innan lands og utan á hverjum tíma.

Hlutverk Rannsóknarráðs Íslands samkvæmt lögum nr. 61/1994 er m.a. að treysta stoðir íslensks atvinnulífs með því að stuðla að markvissu vísindastarfi, tækniþróun og nýsköpun. Má ætla að sú breyting sem hér er lögð til á skipan stjórnar Framleiðnisjóðs sé vel til þess fallin að tengja saman þá aðila sem hér um ræðir og þau verkefni sem þeir hafa með að gera lögum samkvæmt. Með þeirri breytingu á skipan stjórnar Framleiðnisjóðs, sem 11. gr. frv. felur í sér ef að lögum verður, er enn fremur lagt til að Búnaðarbanki Íslands eigi ekki lengur fulltrúa í stjórn sjóðsins. Rökin fyrir þeirri breytingu eru fyrst og fremst þau að óeðlilegt sé að fulltrúi annarrar fjármálastofnunar eigi sæti í stjórninni og taki þar þátt í afgreiðslu og ákvörðunum sem varðað geta viðskiptamenn viðkomandi stofnunar. Slíkt gæti skapað hagsmunaárekstra. Í samræmi við þessa tillögu er lagt til í b-lið 11. gr. frv. að 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna um Framleiðsnisjóð verði felldar brott en þar er kveðið á um að Búnaðarbankinn hafi umsjón með sjóðnum gegn þóknun og um endurskoðun á bókhaldi sjóðsins fari eftir núgildandi lögum um viðskiptabanka og sparisjóði. Um síðari atriðið verða almennar reglur að gilda.

Í 9. gr. frv. eru lagðar til breytingar á lögum nr. 17/1965, um landgræðslu, í þá veru að rjúfa þau tengsl sem hafa verið við Búnaðarfélag Íslands samkvæmt lögunum. Sú breyting sem nú er orðin á skipan stjórnar hagsmunasamtaka bænda leiðir til þess að ekki getur talist eðlilegt að Bændasamtök Íslands hafi með sama hætti umsjón með landgræðslumálum og Búnaðarfélag Íslands hafði með að gera í umboði landbrh.

Í 34. gr. frv. er lagt til að nokkur lög og lagaákvæði sem talin eru úrelt verði felld brott en þar er m.a. um að ræða lög um mótak, lög um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum og lög frá 1984, um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán.

Að endingu skal þess getið að frv. þetta var til umfjöllunar á nýafstöðnu búnaðarþingi og barst ráðuneytinu í gær ályktun þingsins þar sem koma fram athugasemdir og ábendingar við 9.--11. gr. og 17. og 19. gr. frv. Mun ég koma þeim á framfæri við hv. landbn.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. landbn.