Aukastörf dómara

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:56:53 (3922)

1996-03-13 15:56:53# 120. lþ. 107.91 fundur 222#B aukastörf dómara# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[15:56]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég tel að hv. málshefjandi hafi vakið athygli með fyrirspurn sinni um þessi efni og nú með þessari umræðu utan dagskrár á máli sem er mjög nauðsynlegt að verði lagfært. Eftir þær upplýsingar sem fengist hafa frá hæstv. dómsmrh. liggur fyrir í hve miklum mæli leitað er til dómara í sambandi við nefndastörf.

Ég sé ekki hin minnstu rök fyrir því og sannfærðist á engan hátt af því sem fram kom hjá hæstv. ráðherra að nokkur nauðsyn sé á því að halda áfram að skipa dómara í nefndir á vegum hins opinbera og mér finnst það ekki í rauninni réttmætt að setja þá að öllu leyti hvað þetta varðar undir sama hatt og opinbera starfsmenn almennt. Störf dómara eru önnur og veigameiri en almennt gerist um embættismenn í landinu. Eins og hér hefur komið fram í máli manna er hægurinn hjá að leita eftir sjónarmiðum frá dómurum landsins ef nauðsynlegt er talið í sambandi við hvaða málefni sem er sem eðlilegt er að þeir tjái sig um og ég skora á hæstv. ráðherra að marka skýr skil í þessum efnum og beita sér fyrir því en ætla ekki réttarfarsnefnd að hreinsa til í þessum efnum. Það væri þó að það skuli síst lastað ef það kemur þaðan og nauðsyn verður á því.

Ég vil einnig segja að það er þörf á að skoða þessi mál víðar. Eitt af þeim efnum sem þarna er auðvitað umhugsunarefni og hefur verið vakin athygli á með tillöguflutningi hér og oft áður er spurningin um setu ráðherra á Alþingi Íslendinga, þ.e. að sambland löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sem birtist í því. Ég nefni það aðeins vegna þess að það er auðvitað eitt af þessum skörunarmálum milli þessara þriggja valdsviða og ekki það minnsta.