Aukastörf dómara

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:59:20 (3923)

1996-03-13 15:59:20# 120. lþ. 107.91 fundur 222#B aukastörf dómara# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[15:59]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að það gilda sömu reglur um dómara og aðra opinbera starfsmenn hvað varðar heimildir til að stunda aukastörf. Í úrskurði sem kemur frá dómsmrn. 20. des. 1995 og varðaði heimild sem lögregluþjónn í Reykjavík óskaði eftir til að stunda leigubílaakstur sem aukastarf eru rök ráðuneytis í því máli eftirfarandi, með leyfi forseta:

[16:00]

,,Markmiðið með að tilkynna skuli veitingavaldinu [þ.e. dómsmrn.] um það þegar starfsmaður hyggst hefja vinnu við önnur störf samhliða starfi því er hann gegnir í þágu ríkisins er að tryggt sé að starf hans fari saman við starfið hjá ríkinu. Er í því efni um tvennt að ræða: Annars vegar að starfsmaður geti með fullnægjandi hætti rækt starfið og þar með talin nauðsynleg yfirvinna og þar með talið að aukastarfið valdi ekki hættu á vanhæfi hans í aðalstarfið.``

Út frá þessum rökum var þessum lögregluþjóni hafnað á sínum tíma um heimild ráðuneytis til þess að stunda leigubílaakstur í Reykjavík. Mér hefði þótt eðlilegt, að það hefði komið fram hjá hæstv. ráðherra að veitingavaldið, hæstv. dómsmrh., hefði með sama hætti fjallað um umsóknir eða veitingu þessara 23 eða 29 aukastarfa til dómara.

Ég bendi einnig á það að þegar talað er um þessi aukastörf og hugsanlegt vanhæfi að nýleg lög sem samþykkt voru á Alþingi um fjöleignarhús, fela í sér að þar sé sett á stofn sérstök kærunefnd fjöleignarhúsamála. Í þessari kærunefnd fjöleignarhúsamála sitja þrír menn, þar af einn dómari. Lögin tóku gildi 1. jan. 1995 fyrir réttu ári. Eini möguleiki þeirra sem sækja til þessarar kærunefndar með sín mál til að skjóta málinu eitthvað lengra er til dómstóla. Yfir 70 mál fóru til kærunefndar fjöleignarhúsamála á árinu 1995. Eini möguleiki þeirra sem sækja til nefndarinnar um að fá leiðréttingu mála sinna sætti þeir sig ekki við niðurstöðu nefndarinnar er að fara með málin til dómstóla. Einn dómari situr í þessari nefnd af þremur nefndarmönnum.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að ábyrgð á lagasetningu er hjá Alþingi. Hins vegar vitum við það að jafnvel þó svo dómarar hafi komið að því að semja lagafrumvörp þá það hefur gerst að túlkun á gildi einstakra lagagreina og þeirra reglugerða sem byggja á lögum hefur verið mjög misvísandi. Það er jafnframt ljóst að dómarar hafa komið að því að semja reglugerðir. Því væri fróðlegt að heyra hvort það er í einhverjum tilvikum um að ræða að dómari hafi vikið vegna vanhæfis vegna þess að hann hafi komið að því máli, samningu lagafrv. eða reglugerðar á öllum stigum málsins og síðan eigi að dæma eftir.