Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 11:36:32 (3936)

1996-03-14 11:36:32# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[11:36]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var besta ræða hæstv. menntmrh. sem hann hefur flutt í þessu máli til þessa vegna þess að hún birti í allri sinni nekt hina raunverulegu fyrirætlan ríkisstjórnarinnar. Ég spurði einfaldrar spurningar. Hún var þessi: Ef frumvörpin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna verða samþykkt á næstu vikum, kemur þá til greina að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. menntmrh. standi að því að réttindum kennara og skólastjórnenda verði breytt með samsvarandi hætti? Svar hæstv. menntmrh. var tvíþætt: Í fyrsta lagi sagði hann: Nei. En síðan í öðru lagi: Nei, ríkisstjórnin mun ekki gera það einhliða. En svarið var skilyrt. Ef sveitarfélögin óska eftir því, þá munum við gera það. Þá er komið að kjarna þessa máls. Það er hin siðferðilega skuldbinding sem hæstv. menntmrh. hefur gengist undir af hálfu ríkisstjórnarinnar um að koma í veg fyrir að réttindunum verði breytt frá því sem er að finna í lögunum frá 1954. Þetta var hin siðferðilega skuldbinding sem hann axlaði. Ég fæ ekki betur séð en hann sé nú eins og burðarklár að spretta af sér þeim klyfjum og lýsa yfir að hann geti við vissar kringumstæður staðið að því að brjóta sín eigin orð. Það er um þetta sem þessi deila snýst, herra forseti. Það er af þessum sökum sem kennarasamtökin eru full grunsemda. Það er af þessum sökum sem það er ekki rétt sem einn hæstv. ráðherra sagði að þau væru að blanda saman óskyldum hlutum sem væru annars vegar flutningur grunnskólans til sveitarfélaganna og hins vegar frv. til breytinga á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Nú liggur það ljóst fyrir, herra forseti, eftir síðustu ræðu hæstv. menntmrh. að þessir hlutir eru mjög tengdir og gætu haft mjög mikil áhrif á afkomu kennara. Ég ítreka það aftur, herra forseti. Þetta hefur ekkert að gera með það hvaða skoðun maður hefur á lögunum frá 1954 eða lögunum um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Þetta hefur með það að gera hvaða skoðun maður hefur á vægi orða ráðherra íslensku ríkisstjórnarinnar og þau eru ekki mikils virði ef marka má orð hæstv. menntmrh. áðan.