Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 12:19:06 (3939)

1996-03-14 12:19:06# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[12:19]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil gjarnan fá að leggja nokkur orð í belg þessa máls á þessu stigi í framhaldi af orðum hv. þm. Svavars Gestssonar. Það er alveg hárrétt sem hann sagði að fyrir rétt rúmu ári, þá við sérstakar aðstæður í þinginu, leituðust flokkar í stjórn og stjórnarandstöðu eins og því var skipað þá við að ná sátt um þau atriði sem hann rakti, bæði innan þingsins og við aðila utan þess, sérstaklega sveitarfélög og kennara. Mönnum var auðvitað ljóst að það var afar þýðingarmikið við jafnflókna og umfangsmikla aðgerð, einhverja mestu breytingu á samskiptum ríkis og sveitarfélaga varðandi verkefni annars vegar og tilflutning á mjög miklum fjölda starfsmanna hins vegar, að leitast væri við að tryggja eins mikla sátt og fært væri milli allra þessara aðila. Auðvitað gera menn sér grein fyrir því að meiningarmunur kann að verða um einstök minni atriði á langri leið en það var samdóma álit þeirra aðila sem komu að málinu á þessu stigi að rétt væri að gera sitt ýtrasta til að ná sæmilegri sátt innan þingsins og utan þess um það. Það er líka hárrétt að hv. þm. Svavar Gestsson kom mjög að því máli.

Það hefur náðst gott samkomulag í sjálfu sér við þessa aðila, sveitarfélög og kennara um öll meginatriðin og samkomulagið við sveitarfélögin hefur nánast verið innsiglað. Það er ljóst að það stendur ríkur vilji til þess af hálfu sveitarstjórnarmanna yfirleitt um landið að þessi tilfærsla megi ná fram að ganga og hún frestist ekki því það er ótti sem ég tel að sé ekki ástæðulaus meðal sveitarstjórnarmanna að færi þetta mikla mál í frestun núna væri mjög óöruggt um framtíð þess, a.m.k. á næstu árum. Því hefur það verið mat manna að það sé rétt að fylgja því fast fram að þetta mál gangi fram nú í vor þannig að þar megi ekki verða nein bilun í.

Forráðamenn samtaka opinberra starfsmanna áttu fund með fulltrúum ríkisstjórnar fyrir nokkrum vikum. Á þeim fundi var m.a. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, og gerði þar athugasemdir með félögum sínum við ýmis mál sem þá voru uppi. Mér er þó óhætt að segja að formaður Kennarasambandsins hafi á þeim fundi lagt höfuðáherslu á þátt frv. um lífeyrissjóðina gagnvart sér og félagsmönnum sínum. Ég hafði áður sagt í þessum ræðustól að ég teldi að ekki kæmi til álita að breyta með lífeyrissjóðsfrv. lögum þannig að áunninn réttur einstaklinga sem væru nú í störfum mundi breytast. Ég minnist þess að formaður BSRB, hv. þm. Ögmundur Jónasson, kallaði fram í að yfirlýsing af þessu tagi væri þýðingarmikil.

Nú er það þannig að menn geta út af fyrir sig deilt töluvert um þessi atriði en ég tel að færð hafi verið fram ýmis rök fyrir því að menn verði að fara mjög nákvæmlega ofan í þetta frv., sérstaklega varðandi lífeyrissjóðsmálin. Enda þótt breytingar þar séu nauðsynlegar upp á framtíðina til að styrkja stöðu sjóðsins og að tryggja að ríkið komist ekki í þrot varðandi hann þegar fram í sækir og jafnframt að tryggja að meira jafnvægis gæti í lífeyrissjóðsmálum landsmanna en verið hefur þá verður jafnframt að gæta að hinu sem ég hafði áður lýst yfir að ekki væri verið að svipta menn bótalaust rétti sem þeir hefðu áunnið sér. Mér sýnist einsýnt miðað við viðtökur á því máli að það þurfi að fara fram góðar og umfangsmiklar viðræður við aðila um lífeyrissjóðsmálin. Ríkisstjórnin mun ekki reyna að þvinga fram að það verði afgreitt á þessu þingi, t.d. í ósátt við kennara. Ég tel því að það mál eigi ekki að þurfa að vera þröskuldur í vegi þessa máls. Ég tel að sú vinna og sú góða sátt sem verið hefur milli aðila í öllum meginatriðum, sveitarfélagamanna annars vegar og Kennarasambandsins, kennaranna og ríkisvaldsins og reyndar stjórnmálaflokkanna eins og það var orðað af ásettu ráði í þinginu í lok febrúar sé þess eðlis að það eigi að vera hægt að koma málinu þokkalega í höfn.

Ég geri alls ekki lítið úr því að menn þurfi að fara mjög nákvæmlega ofan í lífeyrismálin og gera þær breytingar en þær breytingar verða að horfa til framtíðar. Ekki er hægt að láta þær breytingar verða afturvirkar með þeim hætti að það sé verið að hafa af einstaklingum rétt sem þeir höfðu byggt upp eða höfðu ástæðu til að ætla að þeir mundu búa við. Ég held að þetta hvort tveggja þurfi að koma til og þetta þurfa menn að fara nákvæmlega ofan í.

Ég vildi á þessu stigi málsins, herra forseti, geta þessara sjónarmiða.