Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 12:29:13 (3942)

1996-03-14 12:29:13# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[12:29]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Í Morgunblaðinu í dag, en það blað er gefið út hér í borg eins og við þekkjum sem erum hér inni og hefur þó nokkra kaupendur enn þá, er rækilega farið yfir muninn á því frv. sem hér er verið að ræða annars vegar og hins vegar frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ég heyrði yfirlýsingu hæstv. forsrh. um það að hann er þeirrar skoðunar að það mál þurfi að fara fram. Í þessu yfirliti eru nefnd tólf mikilvæg atriði þar sem frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skerðir réttindaákvæði þess frv. sem hér liggur fyrir. Það verður að taka á því máli og ég tel mikilvægt að þingið fjalli um þetta mál og það verði rætt í þingnefnd o.s.frv. En það er þó mikilvægast á þessu stigi málsins að framkvæmdarvaldið opni á ný fyrir viðræður sem það sleit með því að koma aftan að kennarasamtökunum með þeim hætti sem ég lýsti hér áðan. Þess vegna endurtek ég áskorun mína til ríkisstjórnarinnar um að það verði farið í viðræður um þessi ágreiningsatriði því að meðan þau standa svona er málið í uppnámi.