Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 12:30:49 (3943)

1996-03-14 12:30:49# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[12:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu, þá var að mínu viti nánast búið að sigla þessu máli í strand. Þau frv. sem við munum taka til umræðu í næstu viku gengu þannig gegn þeim loforðum sem búið var að gefa kennurum og skólastjórnendum að ég taldi að það væri óðs manns æði að ætla sér að það mál yrði tekið í gegn átakalaust. En nú tel ég að ræða hæstv. forsrh. hafi höggvið á þennan hnút. Sú yfirlýsing sem hann hefur gefið er mjög merkileg. Hún er nánast í þá veru að það verði hætt við af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja fram frv. um breytingar á lífeyrisréttindum ef í ljós kemur að það eru átök um það mál. Við sem erum í þessum sal vitum að það er uppi mikill ágreiningur um það og ég tel að þar með sé það alveg ljóst að það frv. verður ekki keyrt í gegnum þingið á þessum vetri.

Hins vegar sagði hæstv. forsrh. að það yrði ekki gengið gegn áunnum réttindum sem menn hefðu eða hefðu talið ástæðu til að ætla að þeir hefðu. Eitt af þeim er t.d. biðlaunarétturinn. Nú er upp ágreiningur um það hvers eðlis biðlaunaréttur er. Er hann eins og kemur fram í bæklingi hæstv. fjmrh. ætlaður til þess eins að menn hafi laun á meðan þeir eru að leita sér að nýrri vinnu eða er það svo að biðlaunin séu í raun skaðabætur fyrir tap á réttindum? Ég tel að nýfallinn dómur í svokölluðu SR-máli taki af skarið um það að hin rétta túlkun er hin síðarnefnda. Þess vegna spyr ég hæstv. forsrh.: Þýðir þetta ekki að ef það er ágreiningur um biðlaunaréttinn muni ekki verða lögð höfuðáhersla á það af hálfu ríkisstjórnarinnar að keyra frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna í gegn á þessu þingi?