Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 13:01:21 (3952)

1996-03-14 13:01:21# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[13:01]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að þetta er eitt frv. og svo er annað á þriðjudaginn. Ég hef nokkuð oft tekið fram í dag að frv. sem verður rætt á þriðjudaginn tekur alveg til baka það sem stendur í þessu frv. Það er aðalatriði málsins og það finnst mér að hæstv. menntmrh. þurfi að gera sér betri grein fyrir en mér finnst hann gera hér. Það er beinlínis rangt hjá honum að kennurum hafi verið með bréfi 12. des. 1995 gerð grein fyrir því sem yrði í frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. (Menntmrh.: Frv. er endurskoðað.) Það er allt annað mál, það er auðvitað fölsun að segja: Lögin verða endurskoðuð og segja að þar með hafi kennurunum verið gerð grein fyrir efnisatriðum málsins. (Menntmrh.: Ég sagði það ekki.) Nei, það sagði ráðherrann ekki en þess vegna eru það ekki rök sem ráðherrann flutti. Það er út í loftið að segja: Kennarar fengu bréf 12. des. 1995 um að það ætti að endurskoða lögin vegna þess að þeir voru í góðri trú. Þeir voru í þeirri góðu trú að það gæti ekki verið að það ætti að svipta þá í sama Stjórnarráðinu þeim réttindum sem þeir voru að semja um við hæstv. menntmrh. Þeir voru í góðri trú og það var svikist aftan að þeim. Og það er það traust sem varð til, traustið sem varð til 25. febr. (Menntmrh.: ... réttindum með þessu frv.) Hæstv. forseti. Það er órótt í ráðherranum þarna. Traustið sem varð til 25. febr. 1995 þarf að endurreisa. Það var brotið niður af fjmrn. og hæstv. menntmrh. þarf að hjálpa til við að endurreisa það traust. Það er starfsskylda hans.