Ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 13:48:36 (3956)

1996-03-14 13:48:36# 120. lþ. 108.91 fundur 224#B ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[13:48]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Málshefjandi vitnaði í máli sínu til þáltill. sem samþykkt var á Alþingi 1993 þar sem í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna var félmrn. falið að gera könnun á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum á Íslandi og umfangi hennar. Ég tel að reynslan sýni að þetta nægi ekki, þ.e. þau ákvæði sem finna má í hegningarlögum um þetta efni þar sem kveðið er á um bann við kynferðislegri áreitni. Það þarf fleira að koma til.

Nágrannaþjóðir okkar hafa margar hverjir brugðist við umræðu um kynferðislega áreitni á vinnustöðum með því að opinber fyrirtæki hafa sett reglur um það hvernig brugðist skuli við kvörtunum starfsmanna á fyrsta stigi málsins. Þá hafa háskólar erlendis, t.d. í Englandi, komið á sérstakri ráðgjöf sem rekin er af nemendum í nánum tengslum við skólayfirvöld. Þolendur kynferðislegs ofbeldis geta leitað til ráðgjafarþjónustunnar sem hefur umboð til að taka á málinu.

Ég hygg að a.m.k. ein ástæða þess að ekki er fyrr tekið á svona málum sem upp koma sé að þolendur vita í raun ekki hvernig þeir eiga að snúa sér í málinu eða til hvers á að leita, enda eru slík mál alltaf vandmeðfarin. Þolendur sem verða fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað veigra sér örugglega oft við því, t.d. þegar um yfirmann eða hærra settan starfsmann er að ræða, að kæra hann af ótta um atvinnuöryggi sitt sem kannski er undir viðkomandi yfirmanni komið. Ég tel að við verðum að skapa farveg fyrir það hvernig á að taka á kynferðislegu ofbeldi, t.d. á vinnustöðum eða í opinberum stofnunum.

Við þingmenn Þjóðvaka munum beita okkur fyrir því að lögð verði fram á Alþingi till. til þál. þess efnis að settar verði reglur um meðferð kynferðislegrar áreitni í opinberum stofnunum og á vinnustöðum og um hvernig fara eigi með kvartanir um kynferðislega áreitni á fyrstu stigum málsins.