Ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 13:50:51 (3957)

1996-03-14 13:50:51# 120. lþ. 108.91 fundur 224#B ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum# (umræður utan dagskrár), HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[13:50]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Viðkvæmt og vandmeðfarið efni er til umræðu og það svo að við hikum jafnvel við að hefja máls á því. Ég tek undir með málshefjanda, hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur og öðrum sem talað hafa að ástæða er til að setja reglur og auðvelda leiðir til lausnar í áreitnimálum og hvers kyns misbeitingu aðstöðu. Einnig þakka ég svör hæstv. forsrh.

Við erum hér ekki að kveða upp dóma. Ég legg þunga áherslu á það að brýn nauðsyn er á skýrum boðleiðum og viðbrögðum, öruggum, faglegum og fumlausum viðbrögðum. Þannig ber að tryggja tilfinningalega áheyrn og einnig að tryggja öryggi þeirra sem hafa umkvartanir fram að færa. Einstaklingur þarf að geta kvartað, fundið að ósæmilegri framkomu gagnvart sér, líka löngu áður en áreitið og eineltið er komið á það stig að það varðar við lög. Öryggi beggja aðila þarf að tryggja. Við þurfum að kunna að taka á málum sem eru erfið og óþægileg. Komi slík mál upp innan opinberra stofnana og hvar svo sem þau koma upp annars staðar, er mikilvægt að bregðast við þeim af ábyrgð, af virðingu og trúnaði við alla málsaðila jafnt. Ég heiti mínum stuðningi til þess að svo megi verða.