Ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 13:57:59 (3960)

1996-03-14 13:57:59# 120. lþ. 108.91 fundur 224#B ásakanir um kynferðislega áreitni í opinberum stofnunum# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[13:57]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég tel að þessi umræða hafi verið gagnleg. Ég hlýt að vekja athygli á því þó sem ég nefndi áðan að refsiramminn varðandi kynferðisbrot hér á landi er þyngri en gerist í öðrum norrænum löndum.

Í annan stað er verið verið að gera þá athugun sem að hafði verið stefnt um þessar mundir. Ég tel rétt að ríkisstjórn og þing taki málið til umræðu þegar sú athugun liggur fyrir.

Í þriðja lagi er rétt að menn hafi í huga vegna þessarar umræðu sem auðvitað er mjög mikilvæg að við skulum ekki gefa okkur að ástand hvað þetta varðar sé lakara eða verra nú en áður var. Ég held að ég megi fullyrða að ástandið hafi verið miklu lakara og verra hér forðum vegna þess að fólk var ekki meðvitað um þessa hluti. Umræðan var ekkert uppi um þessa hluti. Áður fyrr höfðu kannski yfirboðarar miklu sterkari stöðu gagnvart undirmönnum sínum en nú er. Samband milli húsbænda og hjúa var með allt öðrum hætti áður fyrr. En þó að þetta sé svo, þá á það ekki að draga úr þeim vilja sem fram kom í þinginu að menn skipi þessum málum í eðlilegan og skiljanlegan og skýran farveg.