Mannanöfn

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 14:01:15 (3961)

1996-03-14 14:01:15# 120. lþ. 108.1 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, SP (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[14:01]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Talsverðar umræður hafa orðið um frv. til laga um mannanöfn sem hér er til atkvæðagreiðslu. Einnig hafa komið fram áhyggjur af aukinni notkun ættarnafna og hafa t.d. ákvæði frv. um millinöfn verið nefnd í því sambandi þótt þeim sé í reynd ætlað að draga úr útbreiðslu ættarnafna. Allshn. tók þessi mál til umræðu á fundi sínum í gær en það var m.a. gert að beiðni hv. þm. Ágústs Einarssonar. Nú er ljóst að hið háa Alþingi getur fylgst með þróun mannanafna og kallað eftir upplýsingum, t.d. frá mannanafnanefnd. Enn fremur munu mikilvægar upplýsingar koma fram í sérstakri mannanafnaskrá sem gefin verður út og send m.a. öllum sóknarprestum. Engu að síður telur allshn. rétt að koma til móts við sjónarmið hv. þm. og fara þess á leit við hæstv. dómsmrh. að hann fylgist með þróun mála og gefi Alþingi skýrslu eftir að ákveðin reynsla er komin á framkvæmd þeirra lagabreytinga sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil hins vegar undirstrika það að frv. er samið vegna mikillar gagnrýni á gildandi lög. Allshn. fór mjög ítarlega í þetta mál og er það skoðun okkar að þessar breytingar þurfi að gera á mannanafnalögum. Með því að gera ráð fyrir meira frelsi í nafngiftum en samkvæmt gildandi lögum er það von nefndarinnar að þjóðin fái þannig betra tækifæri til að móta nafnsiði sína en hingað til og að sátt náist um þá framkvæmd.

Virðulegi forseti. Ég taldi rétt að láta þessa yfirlýsingu koma fram í upphafi þessarar atkvæðagreiðslu og segi jafnframt já.