Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 15:11:59 (3972)

1996-03-14 15:11:59# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[15:11]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að sveitarfélögin taka við rekstri sérskólanna. Það sem hv. þm. er á móti er það að Reykjavíkurborg kunni hugsanlega að taka við þeim rekstri í nafni sveitarfélaganna. Það er annað mál. Hv. þm. getur haft þá skoðun og verið andvígur því að Reykjavíkurborg verði þarna rekstraraðili. En það þýðir ekki að einhver óvissa sé um það hvernig rekstri sérskólanna verði háttað. Þeir verða fluttir til sveitarfélaganna og það er á ábyrgð sveitarfélaganna að annast rekstur þeirra og sveitarfélögin hafa fengið fé til þess. Hv. þm. getur haft vantrú á því að Reykjavíkurborg geti rekið skólana. Ég hef ekki þá vantrú. Ég tel þvert á móti að ekkert bendi til þess að Reykjavíkurborg geti ekki staðið vel að rekstri sérskólanna og fjármunir hafa verið tryggðir til þess að starfsemi þeirra geti haldið áfram óbreytt og jafnvel frekar efld en hitt.

Varðandi starfsmenn fræðsluskrifstofanna er ég ekki með þau nákvæmu gögn í höndum sem ég þyrfti að hafa til þess að svara fyrirspurnum hv. þm. af þeirri nákvæmni sem hann óskar en hitt er ljóst að sú almenna regla gildir þegar störf eru lögð niður og menn taka við öðrum störfum, t.d. hjá ríkinu, ef þeir þiggja þau störf fá þeir ekki biðlaun. Ef starfsmenn fræðsluskrifstofanna taka við störfum hjá sveitarfélögunum kann að hafa verið samið um það að þeir þiggja ekki biðlaun hjá ríkinu. Ég hef ekki þau gögn við höndina en þau eru fyrir hendi. Það er búið að fjalla um þetta, það er unnið að því að komast að niðurstöðu um það hvernig að þessu verður staðið og finnst mér líklegast að niðurstaðan verði sú sem hv. þm. segir að ef þeir taka við störfum hjá sveitarfélögunum fái þeir ekki jafnframt biðlaun frá ríkinu. Ef þeir hins vegar taka ekki við störfum og stöðurnar eru lagðar niður þá fá þeir biðlaun. Þetta er hin almenna regla sem mér finnst að eigi að gilda um þetta eins og endranær.