Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 16:01:25 (3982)

1996-03-14 16:01:25# 120. lþ. 108.8 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:01]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram kom er um 70 starfsmenn að ræða. Það hefur einnig komið fram í umræðunum að í staðinn fyrir fræðsluskrifstofurnar sem hafa verið í hverju kjördæmi, átta talsins, er ætlunin að stofna um 20 skrifstofur til þess að veita sömu þjónustu. Sveitarfélögin hafa staðið þannig að málinu. Ég tel engan vafa á því að starfsmenn fræðsluskrifstofanna ættu að geta fengið störf við hæfi.

Ef ekki semst um þetta með öðrum hætti kann það að vera einstaklingsbundið á milli viðkomandi sveitarfélags og starfsmannsins hvernig gengið er frá þessum samningum en í bréfinu sem ég las upp kemur fram hjá formönnum stéttarfélaganna að þeim finnst ekki óeðlilegt að ef starfsmennirnir glati einskis í þeim rétti sem þeir hafa fái þeir ekki biðlaun frá ríkinu eftir að hafa fengið sambærilegt starf með sömu réttindum hjá sveitarfélögum þannig að málið liggur þannig fyrir.

Að lokum verður líklega um einstaklingsbundna samninga að ræða en menn hljóta náttúrlega að vilja taka mið af þessum aðstæðum þegar þeir ráða menn í vinnu og það er sveitarfélaganna að gera það og ganga þannig frá samningum við menn að allir séu sáttir þegar samið er.