Upplýsingalög

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 16:29:47 (3986)

1996-03-14 16:29:47# 120. lþ. 108.14 fundur 361. mál: #A upplýsingalög# frv. 50/1996, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls um frv. þetta fyrir undirtektir þeirra. Það er alveg rétt sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði. Það er mikið sem hleðst á hv. allshn. Ég vil nefna það sérstaklega, sem reyndar er getið um í greinargerð með frv., að það var lögð fram á 118. þingi skýrsla frá mér um þetta frv. og það yrði meginefni þess sem gæti kannski flýtt fyrir vinnu við frv.

Varðandi þá efnisathugasemd sem hún nefndi um tímasetningar þar sem um er að ræða viðkvæm einkamál nefndi ég það einmitt í framsöguræðu minni að þetta væri atriði sem kynni að orka tvímælis og nefndin muni skoða einmitt það atriði sérstaklega.

Ég tek undir með hv. 2. þm. Reykn. að þetta frv. er mikið hagsmunamál fyrir almenning, jákvætt aðhald fyrir stjórnsýsluna og þá stjórnmálamenn sem starfa í stjórnsýslunni hverju sinni. Ég hygg að löggjöf af þessu tagi hafi reynst vel þeim þjóðfélögum sem líkust eru okkar og engin ástæða til að ætla annað en að þetta frv. ef að lögum verður geti aukið mjög réttaröryggi og aðgang almennings í landinu að þeim skjölum sem þeir aðilar sem í þeirra þágu og umboði vinna eru að sýsla með hverju sinni.