Sálfræðingar

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 16:31:54 (3987)

1996-03-14 16:31:54# 120. lþ. 108.15 fundur 371. mál: #A sálfræðingar# (stjórnskipuleg meðferð leyfisveitinga) frv. 54/1996, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[16:31]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um sálfræðinga þess efnis að meðferð mála er varðar starfsréttindi þeirra flytjist frá menntmrn. til heilbr.- og trmrn.

Forsaga máls þessa er sú að á vegum trmrn. var starfandi nefnd um endurskoðun laga þessara þegar heildarendurskoðun á löggildingarmálum heilbrigðisstétta hófst í heilbr.- og trmrn. Félag sálfræðinga taldi þá svo mikilvægt að endurskoðun þessara laga tæki mið af því er gilda mun um heilbrigðisþætti almennt að nefndin fór þess á leit við endurskoðun laganna yrði frestað eða lægi í láginni þar til heildarendurskoðun heilbr.- og trmrn. yrði lokið. Jafnframt kom fram í erindi frá félaginu að svo rík áhersla yrði lögð á það innan félagsins að sálfræðingar teljist til heilbrigðisstétta að yfirgnæfandi meiri hluti félagsmanna væri því eindregið fylgjandi að málefni þeirra yrðu flutt til heilbr.- og trmrn. Að athuguðu máli hafa hlutaðeigandi stjórnvöld fallist á þessi sjónarmið og ríkisstjórnin samþykkt að málaflokkurinn flytjist á milli þessara ráðuneyta.

Heilbr.- og trmrn. hefur til skamms tíma haft umsagnarrétt um hluta starfsleyfis umsókna sálfræðinga og er málum þeirra því ekki með öllu ókunnugt auk þess sem ávinningur á að hljótast af því að lögverndunarmál þeirra verði endurskoðuð samhliða öðrum sem þeir skipa sér í flokk með. Með því að lög þessi varða samkvæmt efnisákvæðum sínum meðferð stjórnsýslumála og töku stjórnvaldsákvarðana og Alþingi tók sérstaklega til þess afstöðu hvar þeim ætti að skipa í ráðuneyti þykir rétt að leita jafnframt atbeina þingsins til að breyta þeirri skipan og í skyni er frv. þetta flutt. Í ljósi þess að hér er einvörðungu um stjórnskipulegt atriði að ræða vil ég leyfa mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessar umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.