Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 15:48:24 (3993)

1996-03-18 15:48:24# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[15:48]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Sem nefndarmaður í allshn. er ég meðflm. þessa frv. og kem því til með að styðja að það nái fram að ganga. Meginástæða þess að ég stend að flutningi þessa máls er í fyrsta lagi að málið var á forræði allshn., reyndar þeirrar nefndar sem sat á síðasta kjörtímabili og því þykir eðlilegt að nefndin skili málinu af sér inn í þingið.

Í öðru lagi tel ég að þetta frv. feli í sér réttarbót fyrir þá sem eiga rétt á skaðabótum þó að þær séu alls ekki nægar að mínu mati. Allshn. hefur unnið mjög mikið í þessu máli eins og fram kemur í nefndarálitinu og þó að við kvennalistakonur hefðum viljað ganga lengra í þá átt sem tillögur þeirra Gests Jónssonar og Gunnlaugs Claessens frá 10. nóv. 1995 mæltu með er ljóst að gífurlegur ágreiningur er um þessi mál í þjóðfélaginu og sú millilending sem hér er boðuð er pólitísk málamiðlun sem ekki varð haggað.

Sú gagnrýni sem minnst er á í nefndarálitinu á áðurnefndar tillögur og áðurnefnd drög að frv. frá þeim Gesti og Gunnlaugi, að lágmarkslaun séu notuð til viðmiðunar við bótaúreikning og tillögur leiði til ofbóta og aukinn bótaréttur geti leitt til hækkunar á iðgjöldum, kom vissulega fram hjá ýmsum viðmælendum allshn. Við kvennalistakonur tökum ekki undir þessa gagnrýni að öllu leyti eða teljum hana mun léttvægari en þá gagnrýni sem er á núverandi ástand þar sem verulega vantar á að fólk fái fullar fjárhagsbætur í núverandi kerfi, jafnvel eftir að það frv. sem nú liggur fyrir er orðið að lögum.

Ég lít svo á að skyldur löggjafans séu fyrst og fremst þær að skapa réttlát skaðabótalög fremur en að horfa til möguleika á hækkun iðgjalda, ekki síst vegna þess að þau rök sem tryggingafélögin hafa fært fram um nauðsyn á hækkun á iðgjöldum eru ekki nægilega sannfærandi að mínu mati.

Sá pólitíski millileikur og málamiðlun sem fram kemur í þessu frv. er til bóta miðað við núverandi lög og mun leiða til hækkunar á skaðabótum. Því ákvað ég að vera meðflutningsmaður sem aðili að allshn. sem einstaklingur án þess að binda þingflokk Kvennalistans að öðru leyti. Ég kom því sjónarmiði á framfæri í nefndinni að ég hefði kosið að stuðullinn hefði verið hækkaður a.m.k. upp í 11 sem hefði að mínu mati verið réttlátari lending. Einnig taldi ég að lögin ættu að taka gildi strax við samþykkt þeirra en ekki 1. júlí eins og frv. gerir ráð fyrir. Hvers eiga þeir tjónþolar að gjalda sem slasast á milli þess tímabils sem líður á milli samþykkis þessa frv. og fram til 1. júlí? Þetta var málamiðlun á milli sjónarmiða bótaþola og hagsmuna tryggingafélaga og ég er þeirrar skoðunar að við hefðum átt að láta lögin taka gildi strax.

Ein mikilvægasta greinin í þessu frv. er þó að mínu mati 3. gr. um ákvæði til bráðabirgða þess efnis að dómsmrh. skipi nefnd til að vinna að heildarendurskoðun skaðabótalaga og að nýtt frv. til skaðabótalaga verði lagt fram eigi síðar en í október 1977. Mjög mikilvægt er að sú nefnd hefjist handa sem fyrst ef unnt á að vera að gera nauðsynlegar rannsóknir til að fá fram öll viðeigandi gögn í þessu viðkvæma en mikilvæga máli.

Það er mjög athyglisvert sem kom fram við yfirferð á málinu að við Íslendingar byggjum okkar skaðabótalöggjöf á fordæmi frá Danmörku en þar virðast skaðabætur vera með því allra lægsta sem tíðkast í Evrópu. Þetta kerfi þarf því að skoða frá öllum hliðum og skal sérstaklega bent á það atriði sem nefnt er í greinargerð allshn. að hugað verði að því að greiða örorkulífeyri út mánaðarlega í stað eingreiðslna þegar örorkustig er hátt, ekki síst í ljósi þess að til umræðu er að setja á fjármagnstekjuskatt sem verulega mundi skerða skaðabætur sem greiddar eru með eingreiðslu. Þau álitamál sem eru einna stærst nú á þessu sviði eru að mínu mati hvort halda eigi áfram að byggja á stöðluðum skaðabótarétti eins og lögin frá 1993 gera ráð fyrir eða hvort fara eigi aftur til þess ástands sem ríkti fyrir gildistöku skaðabótalaganna. Hitt álitamálið er hvort taka beri tillit til annarra lífeyristrygginga við mat á skaðabótagreiðslum eða ekki. Þarna er um grundvallaratriði að ræða að mínu mati og mælist ég til að viðkomandi nefnd, sem á að búa til nýtt frv., skoði vel alla kosti og galla á þessum mismunandi leiðum en festi sig ekki við of þröngar forsendur í byrjun.

Eitt mikilvægasta misrétti skaðabótalaganna verður ekki leiðrétt með skaðabótaréttinum sjálfum, nefnilega það að miða framtíðartekjur við tekjur viðkomandi á slystíma. Á meðan kynjamisrétti tíðkast í launum og er eins mikið og raun ber vitni í þjóðfélaginu munu konur fá lægri skaðabætur en karlar. Það er mjög óréttlátt í landi þar sem jafnrétti til launa á að ríkja. Því væri verulega til bóta ef miðað væri við tilteknar lágmarkstekjur fyrir tekjulága einstaklinga eins og gert er ráð fyrir í tillögum þeirra Gunnlaugs og Gests frá því 10. nóv. 1995. Þær tillögur hefðu einar sér leitt til verulegar hækkunar á skaðabótum fyrir velflestar konur, ekki síst þær sem eru í hlutastörfum og einnig mjög marga láglaunamenn. Ef ekki verður veruleg breyting á næsta ári til batnaðar varðandi kynbundið launamisrétti mæli ég eindregið með því að þessi leið verði farin í því nýja frv. sem nú á að fara að smíða. Með því móti þarf fólk ekki að líða fyrir það út ævina að vera með óvenjulega lágar tekjur þegar það slasast. Að þessu sögðu ítreka ég þó að ég tel að sú nefnd sem á að endurskoða þessi lög eigi að hafa óbundnar hendur og eigi að skoða sem alflest sjónarmið.