Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 16:14:35 (3999)

1996-03-18 16:14:35# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:14]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Ég held að flestir séu sammála um að það þurfi að fara fram gagnger endurskoðun á skaðabótalögunum frá 1993 þar sem margvíslegir og stórir ágallar hafa komið fram í þeirri löggjöf. Með þessu frv. frá allshn. er stigið mikilvægt skref til hækkunar á skaðabótum eða stuðlunum. Engu að síður er ljóst að mörg stór álitamál bíða úrlausnar þeirrar nefndar sem frv. kveður á um í ákvæði til bráðabirgða að hæstv. dómsmrh. skipi. Það hefði vissulaga verið æskilegt og út af fyrir sig nauðsynlegt að afgreiða á þessu þingi allar þær breytingar sem er nauðsynlegt að gera á skaðabótalögunum. En ég tel að miðað við allar aðstæður sé þetta ásættanleg niðurstaða þó ég telji að ekki hefði átt að gefa nefndinni sem vinna á verkið áfram svona langan tíma. Miðað við þá miklu vinnu sem lögð hefur verið í þetta mál hefði að mínu viti verið nægjanlegt að gefa nefndinni tíma fram á næsta vetur þannig að hægt hefði verið að lögfesta allar þær breytingar sem gera þarf á skaðabótalögunum þegar á næsta þingi en þær þyrftu ekki að bíða í kannski tvö ár héðan í frá.

Það er alveg ljóst að það er mjög erfitt fyrir fólk að búa við mismunandi bótarétt. Það gerist auðvitað nú með því að við erum einungis að stíga eitt skref af því sem nauðsynlegt er í áfanga að heildarendurskoðun á þessum lögum. Það geta því verið í gangi þrjú mismunandi skaðabótakerfi sem er mjög óæskilegt. Þess vegna hefði verið réttara að mínu viti að flýta þessari endurskoðun meira en gert er ráð fyrir í frv.

Það sem gerði nefndinni erfitt fyrir og kom raunar í veg fyrir að hægt væri að afgreiða heildstæð skaðabótalög var fyrst og fremst það að sjónarmið umsagnaraðila stönguðust gjörsamlega á. Það sem einn taldi hvítt taldi annar svart þannig að það var gjörsamlega óhugsandi fyrir nefndina að átta sig gjörla á hvaða raunverulegu áhrif breytingarnar mundu hafa á útreikning á skaðabótarétti tjónþola eða hvort og þá hvað mikla hækkun breytingarnar kynnu að hafa á iðgjaldagreiðslur. Ég man hreinlega ekki eftir því að svona gjörsamlega andstæð sjónarmið hafi komið fram í langan tíma frá hagsmunaaðilum um hvaða áhrif einstaka tillögur eða frv. hafi enda erum við kannski að fjalla hér um flóknasta svið lögfræðinnar sem er skaðabótaréttur.

Það er vissulega rétt sem hér kom fram og undir það tek ég að meginmarkmiðið hlýtur að vera að tjónþolar fái sanngjarnar bætur. Ég er í meginatriðum hlynnt þeim tillögum sem lágu fyrir nefndinni frá þeim sem sömdu þetta frv., þ.e. Gunnlaugi Claessen og Gesti Jónssyni, en um það náðist ekki samkomulag.

Þegar ég vitna í mismunandi sjónarmið hjá hagsmunaaðilum sem gengu hreinlega í gagnstæðar áttir þá get ég til að mynda vitnað í Samband íslenskra tryggingafélaga. Þeir töldu að hækkun skaðabóta vegna líkamstjóna mundi nema um 50% ef tillögurnar yrðu að lögum og hækkun iðgjalda vegna breytinga yrði geysileg í ábyrgðartryggingum eins og þeir orðuðu það og öðrum þeim tryggingum sem hefðu að geyma ábyrgðartryggingaþáttinn. Þó vissulega sé rétt að við eigum fyrst og fremst að skoða það meginmarkmið tjónþola að þeir fái sanngjarnar bætur þá verður ekki fram hjá því litið hvað mismunandi skoðanir komu upp annars vegar frá tryggingafélögunum og hins vegar frá Vátryggingareftirlitinu hvort þörf væri á að hækka iðgjöldin. Tryggingafélögin héldu því fram að bara miðað við þá einföldu breytingu sem verið er að gera á skaðabótalögunum með því að hækka stuðulinn þá þyrfti að koma til 15--20% hækkun á iðgjöldum. Það er auðvitað algjörlega óástættanlegt. Því treysti ég því auðvitað sem fram kom hjá Vátryggingareftirlitinu bæði í bréfi því sem formaður nefndarinnar las upp áðan og eins í nefndinni að Vátryggingareftirlitið telur að vátryggingafélögin eigi að geta mætt þessari hækkun á stuðlunum án þess að til komi hækkun á iðgjöldum. Ég mun samþykkja þetta frv. í trausti þess að ekki verði um að ræða neina hækkun á iðgjöldunum. Vátryggingareftirlitið getur gripið inn ef um er að ræða ósanngjarna iðgjaldahækkun. Miðað við það sem ég hef farið ofan í þetta mál sem liggur fyrir nefndinni tel ég að það þurfi ekki að koma til hækkun á iðgjaldagreiðslum. Það segir sig auðvitað sjálft að það mun hafa veruleg áhrif á kjör fólksins í landinu ef þessu frv. fylgir að hækka þurfi iðgjöldin um kannski 15--20%. Við skulum minnast þess að árið 1993 þegar almennt var talið að verið væri að draga úr skaðabótum hjá fólkið lækkuðu tryggingafélögin ekki iðgjaldagreiðslurnar þó þau hefðu kannski átt að gera það miðað við þær forsendur sem þau gefa sér núna fyrir því að hækka þær.

Margt kom fram í nefndinni þegar við vorum að fjalla um þetta stóra mál. Neytendasamtökin bentu á að tryggingabætur væru almennt lægri hér á landi en í nágrannalöndunum en tryggingaiðgjöld væru samt hærri. Töluverðar umræður urðu sem tengist stöðu á bótasjóðnum sem er til staðar og hefur hækkað verulega í gegnum árin og nú er áætlað að sé um að mig minnir 11 milljarðar kr. Þar kom einmitt fram verulegur mismunur á skoðunum Vátryggingareftirlitsins og tryggingafélaganna þar sem tryggingafélögin töldu að þeir 11,6 milljarðar, sem voru í sjóðnum 1994, væri eingöngu skuldbindingar vegna tjóna sem ekki væri búið að ganga frá. Það væri því ekki um neinn varasjóð að ræða, t.d. til að mæta hækkun á iðgjöldum. Síðan kemur Tryggingaeftirlitið, virðulegi forseti, og talar um að kannski megi líta á það sem svo að það sé 3,5 milljarðar í þessum bótasjóði sem sé borð fyrir báru, varasjóður sem ekki þurfi að líta á sem skuldbindingar vegna tjóna sem þegar hafa orðið. Þetta eitt segir okkur, virðulegi forseti, hvaða vandi nefndinni var á höndum þegar svona misjöfn sjónarmið komu fram vegna þess að vissulega skiptir máli hvort um er að ræða varasjóð í þessum bótasjóði sem hefur ekki þegar verið skuldbundinn upp á 3,5 milljarða eða hvort allir þessir 11,6 milljarðar séu þegar bundnir vegna fyrri tjóna. Úr þessu fékkst ekkert skorið. Þessir tveir aðilar voru ekki sömu skoðunar að því er þetta mál varðar.

Ýmislegt fleira mætti nefna sem kom fram í nefndinni, t.d. skoðun Vinnuveitendasambandsins sem ég er gjörsamlega ósammála. Þeir töldu að það væri mjög óeðlilegt að hafa þessa lágmarksviðmiðun við tekjur vegna skaðabóta. En lágmarkslaunaviðmiðið var í tillögum tvímenninganna um 1.400 þús. kr. Var það álit Vinnuveitendasambandsins að þessi tillaga upp á 1.400 þús. kr. lágmark miðaði að því að tveir þriðju hlutar tjónþola fái fjártjón sitt ofbætt vegna viðmiðunar við umrætt lágmark. En síðan þegar gengið var á Vátryggingareftirlitið og þeir spurðir hvort þeir gerðu athugasemdir við lágmark upp á 1.400 þús. kr. þá gerði Vátryggingareftirlitið engar athugasemdir við það að hafa þetta lágmark í lögum.

Eins komu vissulega fram gagnlegar ábendingar frá Vinnuveitendasambandinu sem snerta vaxtafótinn. Vinnuveitendasambandið gerði að umtalsefni í umsögn sinni að með dómi Hæstaréttar í mars 1995 í skaðabótamáli komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri eðlilegt að miða við 6% vexti við ávöxtun á töpuðum framtíðartekjum heldur væri nær að miða við 4,5%. Það skiptir verulegu máli hvaða vaxtaviðmið er notað. Benti Vinnuveitendasambandið m.a. á sem augljóst er að það er miklu hærri ávöxtun á ýmsu sem í boði er eins og spariskírteinum ríkissjóðs og fleiri bréfum sem væru betur til þess fallin að tjónþolar, sem verða fyrir mikilli örorku, næðu ásættanlegri ávöxtun.

Virðulegur forseti. Ég vil gera að umtalsefni gildistöku á frv. ef að lögum verður. Hún á að verða 1. júlí 1996. Vissulega er mjög óeðlilegt og verður að taka undir þegar allir viðurkenna að hér sé um mikið réttlætismál að ræða og nauðsynlegt sé að hækka þennan stuðul til þess að fólk fái sanngjarnar bætur þá skuli líða þrír og hálfur mánuður frá því að Alþingi samþykkir frv. þangað til það tekur gildi. Þeir sem lenda í slysi á þessu tímabili verða að búa við það að skaðabætur þeirra taki mið af eldri lögum. Þess vegna hefði ég sannarlega viljað skoða nánar hvort hægt væri að ná einhverju samkomulagi um það að sá réttur sem skapast með þessu frv., ef að lögum verður, taki gildi strax. Á það var vissulega horft hvað Samband íslenskra tryggingafélaga sagði í því máli. Þeir töldu að þeir þyrftu a.m.k. heilt ár til að undirbúa þessar breytingar af sinni hálfu sem var þó bara einföld breyting varðandi hækkun á stuðlinum. Þeir töldu að um afturvirkar íþyngjandi aðgerðir væri að ræða sem þeir þyrftu að mæta með hækkun á iðgjöldunum.

Þegar miðað er við það hve lítið skref er verið að stíga og ég tek líka undir að stuðullinn hefði þurft að vera nær 12 en 10 þá tel ég nú ekki að tryggingafélögin þurfi þennan tíma til undirbúnings. Ég vísa líka í stöðu bótasjóðsins sem ég nefndi áðan.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Það er komið ákveðið samkomulag í þetta mál sem ég og þingmenn Þjóðvaka munum styðja. Ég taldi þó rétt að koma þeim athugasemdum á framfæri sem ég hef varðandi þetta mál sem eru allmiklar. En ég í treka að í trausti þess að tryggingafélögin nýti sér ekki að verið sé að breyta þessum ákvæðum skaðabótalaga og fari að hækka iðgjöldin þá styð ég þetta mál og einnig í trausti þess að Vátryggingareftirlitið sem hefur sagt að það telji að tryggingafélögin eigi að geta staðið undir þessum breytingum að það grípi þá til þeirra ákvæða í lögum sem það getur gert til að forða því að um hækkun á iðgjöldum verði að ræða vegna þessara breytinga.