Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 16:29:03 (4000)

1996-03-18 16:29:03# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:29]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bað um andsvar í tilefni af orðum hv. þm. um að hún samþykkti þetta frv. í trausti þess að tryggingafélögin hækkuðu ekki iðgjöldin. Mér finnst satt að segja alveg ótrúlegt það mikla traust sem menn sýna tryggingafélögunum með hliðsjón af fenginni reynslu. Ég vildi spyrja hv. þm. og aðra sem hafa um þetta mál vélað um það hvernig þeir fara að því að treysta tryggingafélögunum svona rosalega. Það væri fróðlegt að hæstv. allshn. gerði grein fyrir því hvaða hugljómun hún hefur orðið fyrir í sambandi við þetta mikla traust á tryggingafélögunum. Mér sýnist hins vegar einboðið ef málið er samþykkt í trausti þess að tryggingafélögin hækki ekki eigi auðvitað Alþingi að gera það með þeim eina hætti sem það getur gert þetta. Það er að setja inn í lögin ákvæði um að tryggingafélögunum sé bannað að hækka iðgjöldin út á þessa breytingu, beinlínis bannað það. Það er það eina sem er rökrétt að gera í þessu samhengi.

Ég verð að segja í framhaldi af ummælum hv. þm. og annarra þingmanna varðandi þetta mál þar sem talað er um einhverja millileið, sáttaleið og að mætast á miðri leið að það er eins og það sé einhver ósýnileg hönd í húsum Alþingis á vegum tryggingafélaganna sem menn hafi allt í einu ákveðið að semja við. Ég kannast ekki við að tryggingafélögin eigi hér þingmenn. Það mætti rannsaka en ég kannast ekki við að svo sé. M.a. með hliðsjón af því flytjum við, ég og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, tvær brtt. við þetta frv. Annars vegar gerum við ráð fyrir breytingu á 3. gr. og hins vegar gildistökugreininni. Afgreiði Alþingi málið svona finnst mér það ekki afgreiða það með fullmyndugum hætti fyrir hönd löggjafans heldur er ætlast til að menn stigi einhverja hálfa leið til móts við tryggingafélögin. Við erum kosin af þjóðinni til að gegna hér tilteknum skyldustörfum og við eigum að horfa yfir sviðið í heild með hliðsjón af því.