Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 16:35:04 (4004)

1996-03-18 16:35:04# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, PHB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:35]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við erum hér að fjalla um bætur fyrir tjón, slys og annað því um líkt. Það er eitt af því flóknasta sem við sjáum. Áður en lögin voru sett árið 1993 gerðist það þannig að læknir mat örorkuna, oft eftir einhverjum töflum. Missir fótar var ákveðin prósenta, missir sjónar önnur prósenta og síðan var örorkumat læknisins látið í hendur tryggingafræðingi sem reiknaði út frá aldri mannsins hvaða fjárhagstjóni hann yrði fyrir. Reiknað var með því að fjárhagstjónið yrði eins og örorkulíkurnar gáfu tilefni til. Inn í það komu lífslíkur og vextir og til að útskýra hlutverk vaxtanna þá var það þannig að tryggingafræðingurinn komst að því að maðurinn tapaði kannski 100.000 kr. í desember árið 2005 og þá var athugað hvaða upphæð þyrfti að leggja á bók í dag með þessum fyrir fram gefnum vöxtum til að eiga 100.000 á þessum degi að því gefnu að maðurinn væri þá enn á lífi. Þannig að dánarlíkur koma inn í þetta líka. Þetta var ákaflega flókið. Maðurinn fékk eingreiðslu sem honum var ætlað að ávaxta og þurfti þá að ná þeirri ávöxtun sem gengið var út frá í útreikningnum. Eins og ég segi var þetta mjög flókið mál og þessu var breytt árið 1993.

Herra forseti. Tjón eru mjög persónubundin, sérstaklega minni tjón. Við skulum ímynda okkur að einhver hv. þm. missi litla fingur vinstri handar. Það mun ekki há honum að neinu leyti í starfi og hann mun ekkert missa í tekjum. En ef viðkomandi væri heimsfrægur píanóleikari gæti það orðið til þess að hann spilaði ekki framar. Þar af leiðandi er örorkan í öðru tilfellinu núll en í hinu tilfellinu 100%, sama tjónið. Sama hef ég oft rekist á varðandi verkamenn sem verða fyrir litlu tjóni og þar sem þeir eru ekki lengur færir um að grafa skurð hef ég upplifað að þeir eru gerðir að verkstjórum og hækka í launum. Þannig að tjón þeirra var ekkert, minna en ekkert. Það er því ákaflega erfitt að dæma tjón einstaklings. Oft á tíðum eru þau dæmd út frá líkum. Maður verður fyrir ákveðnu slysi og það eru ákveðnar líkur á því að meiðslin taki sig upp eftir nokkra áratugi. En kannski taka þau sig aldrei upp. Ég man eftir dæmi um sjómann sem varð fyrir alvarlegu slysi en það var lagað. En það mátti ekkert koma fyrir hann, þá yrði hann 100% öryrki. Þegar ég síðast vissi hafði ekkert komið fyrir hann og hann vann áfram sem sjómaður. Honum voru líka dæmdar bætur á þeim grundvelli að hann yrði með ákveðnum líkum öryrki. Þannig að það er ákaflega einstaklingsbundið hvernig menn lenda í slíku tjóni sem menn eru að tala um.

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt í öllum bótarétti og í öllum bótakerfum að ekki sé um oftryggingu að ræða. Af hverju? Vegna þess að það er einhver sem borgar bæturnar. Það er einhver sem borgar bæturnar og ef um er að ræða kerfisbundna oftryggingu verður sá sem borgar að borga meira, hvort sem það eru tryggingafélög, iðgjaldsgreiðendur eða skattgreiðendur og of háar bætur eða oftrygging er alltaf til skaða. Yfirleitt er talið að hún eigi ekki að eiga sér stað.

Herra forseti. Það kom hér fram í máli hv. þingmanna að hv. allshn. fékk afar misvísandi umsagnir. Á því er mjög einföld skýring. Hún er sú að sumir líta eingöngu á afmarkaðan hluta vandans. Hverju tapar maðurinn í tekjum og hvað þarf að bæta honum? Segjum að þetta sé maður með 100.000 kr. tekjur á mánuði. Hann er 100% öryrki og þá tapar hann þarna 100.000 kr., kann einhver að segja. Það þarf að bæta honum þessar 100.000 kr. eða 1,2 millj. á ári héðan í frá til ellilífeyrisaldurs eða jafnvel til dánardægurs. Þetta segja sumir og þeir segja að það sé allt of lítið að bæta það með tíföldum árslaunum. Það er hárrétt þegar maður lítur bara á tekjutjónið eitt sér. En svo kemur í ljós að við erum með almannatryggingakerfi sem þessir menn höfðu ekki hugað að og þetta almannatryggingarkerfi tryggir mann sem aldrei hefur borgað í lífeyrissjóð og aldrei hefur unnið 50--54 þús. kr. lágmark. Það eru reyndar ákaflega flóknar reglur. En Íslendingur sem hefur verið búsettur á landinu í 16 ár, að mig minnir, fær 54 þús. kr. á mánuði í lífeyri þó hann hafi aldrei borgað í lífeyrissjóð. Þetta hlýtur að koma inn í þetta dæmi sem við erum að tala um. Síðan erum við búin að setja upp heilmikið kerfi lífeyrissjóða ef einhver skyldi ekki hafa tekið eftir því. Í þessum lífeyrissjóðum eru um eða yfir 200 milljarðar til að tryggja Íslendinga. Þessir lífeyrissjóðir hafa mjög metnaðarfullt markmið, þ.e. að tryggja Íslendingum 60--80% af tekjum vegna örorku eða elli. Þeir eru reyndar ekki búnir að starfa nema í 20 ár og eru því ekki komnir hálfa leiðina að þessu marki. Þeir eru farnir að veita fólki núna svona 40--60% af launum sem ellilífeyri. 40% oftast nær eða jafnvel 30%, en í örorkulífeyri eru flestir þessir lífeyrissjóðir þannig að þeir framreikna. Ungur maður sem verður öryrki fær 70--80% af launum sem lífeyri. Reyndar er samspil lífeyrissjóðakerfisins og almannatrygginga ákaflega flókið. En mér segir svo hugur að maður sem verður 100% öryrki og er með 80 þús. kr. á mánuði, ég lagði fram fyrirspurn um þetta til heilbrrh. í síðustu viku, fái 84 þús. kr. í lífeyri. Maður sem er með 80 þús. kr. í mánaðarlaun fær um 84 þús. kr. í lífeyri. Hann fær sem sagt hærri örorkubætur frá almannatryggingum og lífeyrissjóðum en hann hafði í laun. Þetta kostar milljarða. En ef þetta tjón hans verður vegna slyss sem er bótaskylt þá skal hann fá tíföld árslaun til viðbótar við það að hafa hagnast á slysinu. Hann er með 80 þús. kr. á mánuði, það eru 960 þús. kr. á ári sinnum 10, þ.e. 9,6 millj. vegna þess að hann græðir 4.000 kr. á mánuði. Það er von að umsagnirnar hafi verið misvísandi.

Það sem kemur kannski mikið inn í þetta mál er að menn eru að rugla saman miska og bótum, fjárhagstjóni. Ég er eingöngu að tala um fjárhagstjón. Ég er ekki að tala um þann mikla miska sem menn verða fyrir við það að verða fyrir slysi. Þessi oftrygging minnkar þegar um er að ræða menn með hærri tekjur. Ef þetta er ungur öryrki með 200.000 kr. í tekjur fær hann u.þ.b. 150 þús. kr. í lífeyri ef allar tekjurnar eru tryggðar, þ.e. ef hann er ekki háður því eins og opinberir starfsmenn að eingöngu dagvinnan er tryggð. Þegar maður lítur til alls kerfisins í heild er þar greinilega um að ræða töluverða oftryggingu. Það er dýrt og það þarf að reyna að hindra.

Herra forseti. Menn hafa nokkuð rætt hér um hlutverk vaxta. Það er verið að tala um að fyrir þennan hæstaréttardóm var reiknað með 6% vöxtum og nú á að reikna með 4,5% vöxtum. Hvernig lítur þetta út fyrir einstakling sem verður fyrir tjóni? Hann fær einhverja upphæð sem hann á að ávaxta um alla framtíð. Ef þetta er þrítugur maður þá þarf hann að ávaxta þetta þar til hann fer á ellilífeyri sjötugur eða í 40 ár. Honum var ætlað að ná 4,5% raunvöxtum á þetta fjármagn sitt í 40 ár. Það er nánast útilokað. Ég held að vaxtaprósentan, þeir vextir sem menn ná á þetta fjármagn sitt, sé miklu lægri og kannski ekki nema 3--3,5% í svona langan tíma. Þarna er um að ræða vantryggingu.

Svo hefur ekki komið inn í umræðuna að þessar eingreiðslur eða bætur eru skattfrjálsar en launin að sjálfsögðu ekki. Þannig að það er líka ákveðin oftrygging. Eldra fólk sem verður öryrkjar er ekki búið að vera eins lengi í lífeyrissjóði þannig að það nær ekki þessum 70--80% af tekjum sem ég talaði um áðan. Þeir aðilar fá því ekki eins háar bætur og yngra fólkið.

Það er von að þetta mál sé flókið. Ég styð eindregið að úr þessu máli verði unnið frekar í nefnd og það getur vel verið að menn þurfi að hverfa frá þeim einföldu aðgerðum að hafa einhvern stuðul sem allir eiga að fá burt séð frá aðstæðum. Kannski þurfa menn að fara þá leið að reikna hvern einstakan út og kannski eiga menn að ganga enn þá lengra og vera ekki að tala um eingreiðslur og ætla ekki fólki að ávaxta fé sitt í 20--30 ár, heldur eigi menn að fá lífeyri. Þá losnar um fullt af vandamálum, t.d. það sem ég gat um áðan með líkurnar á sjómanninum, hann fengi þá 100% lífeyri þegar áfallið dyndi yfir en ekkert þangað til. Sömuleiðis mætti kanna jafnóðum hvort menn hafi raunverulega orðið fyrir jafnmikilli örorku og um er talað þannig að ef lífeyrir væri greiddur út til þessa fólks mætti segja að maður sem er með 150 þús. kr. mánaðarlaun eigi bara að hafa þau tryggð um alla framtíð. Ef það kemur í ljós að örorkan batnar eða versnar er hægt að leiðrétta það með lífeyrinum. En þetta er náttúrlega töluvert mikil kerfisbreyting og ég ætla að menn þurfi a.m.k. um tvö ár til þess að huga að þessum málum.