Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 16:45:44 (4005)

1996-03-18 16:45:44# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, BG
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:45]

Bryndís Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Hér er verið að ræða frv. til breytinga á skaðabótalögum sem sett voru árið 1993 og tóku gildi 1. júlí það ár. Þau lög voru nýlunda hér á landi og þóttu mikil réttarbót. Sú stefna hafði verið mörkuð við setningu þeirra laga að gera ákvæði þeirra þannig úr garði eins og segir orðrétt í greinargerð með frv. með leyfi, herra forseti, ,,að tjónþoli fái almennt auk hæfilegra miskabóta fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón sem hlýst af völdum líkamsmeiðsla``.

Eftir að lögin tóku gildi komu fram rökstuddar ábendingar frá hópi lögmanna um að reiknireglur laganna væru fjarri því að ákveða þorra tjónþola fullar bætur fyrir fjártjón. Ábendingu lögmannanna var í fyrstu illa tekið en þó fór svo að lokum að málið var tekið til meðferðar að frumkvæði allshn. og nefnd þriggja manna sett í málið. Tveir nefndarmanna skiluðu meirihlutaáliti vorið 1994 þar sem fallist var á réttmæti ábendingar lögmannanna. Ekkert varð úr breytingum á lögunum í það sinn en allshn. fól síðar þeim Gesti Jónssyni hæstaréttarlögmanni og Gunnlaugi Claessen hæstaréttardómara, er staðið höfðu að meirihlutaálitinu vorið 1994, að gera nýjar tillögur að breytingum á lögunum eftir að Hæstiréttur hafði síðla vetrar 1995 kveðið upp stefnumarkandi dóm í líkamstjónsmáli. Tillögum þeirra félaga var skilað til allshn. í nóvember sl. ásamt ítarlegri og mjög vel rökstuddri skýrslu sem fylgir frv. Tillögur þeirra tvímenninga fela í sér mikilsverðar og að mínu mati nauðsynlegar breytingar á allmörgum ákvæðum skaðabótalaganna. Þykir mér miður að allshn. treystir sér ekki til að leggja til frekari breytingar á lögunum byggðar á tillögum þeirra tvímenninganna en kemur fram í frv. því sem hér liggur frammi.

Eins og fyrr sagði var megingagnrýnin á reiknireglurnar og þá einkum margfeldisstuðulinn í 6. gr. sem hafði verið ákveðinn 7,5. Fyrri tillögur tvímenninganna vorið 1994 gerðu ráð fyrir að stuðullinn þyrfti að hækka upp í 10 til að tryggja markmið laganna um fullar bætur. Síðan hefur dómur Hæstaréttar frá mars 1995 enn frekar leitt til þess að stuðull þessi þyrfti að hækka enn þá meira. Er skoðun tvímenninganna ítarlega rökstudd á bls. 13--19 í fskj. með frv.

Ég ætla mér ekki að ræða um fræðilegar forsendur breytingartillagnanna enda ekki sérfræðingur á því sviði. Hinar pólitísku forsendur eru hins vegar skýrar og komu fram í því sem ég vitnaði til áðan að tilgangur laganna hefði verið m.a. að tjónþoli fengi almennt auk hæfilegra miskabóta fullar bætur fyrir raunverulegt fjártjón sem hlytist af völdum líkamsmeiðsla. Ef hinar pólitísku forsendur eru þessar og þar sem fyrir liggur ítarleg og rökstudd tillaga fræðimanna á sviði skaðabótaréttar sem hefur ekki verið hrakin efnislega þá skil ég ekki hvers vegna er ekki lagt til að ganga lengra til breytinga á lögunum en fram kemur í frv. og þá til samræmis við tillögur þessara fræðimanna. Það skyldi þó ekki vera að áróðursherferð vátryggingafélaganna gegn tillögum þeirra Gests og Gunnlaugs eigi hlut að máli, áróðursherferð sem var alls ekki málefnaleg út frá sjónarmiði vátrygginga og skaðabótaréttar. Efnisleg gagnrýni kom ekki fram. Megingagnrýnin var af pólitískum toga. Breytingarnar mundu hafa í för með sér stórkostlega hækkun iðgjalda. Þetta var snjallt áróðursbragð. Vátryggingafélög vissu að slíkur áróður gengi í margan stjórnmálamanninn. Ekkert hefur verið sannað um nauðsyn hækkana iðgjalda þó farið yrði að tillögum tvímenninganna, eða hvað segir Vátryggingareftirlitið um það?

Allshn. hefur látið semja vandaða greinargerð þar sem fram kemur að tjónþolar þurfa að þola hróplegt ranglæti vegna laganna. Greinargerðinni fylgja fullbúnar tillögur um hvernig úr skuli bæta. Ef ríkisvaldið sér ekki fyrir hagsmunum tjónþola verða fáir aðrir til þess. Skref það sem lagt er til að stigið verði í þá átt að tjónþolar fái fullnægjandi bætur er til bóta en að mínu mati engan veginn nægilega stórt. Ég styð þessar breytingartillögur en legg þó til að frekari endurbótum verði hraðað.