Skaðabótalög

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 16:50:59 (4006)

1996-03-18 16:50:59# 120. lþ. 109.8 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, Frsm. SP
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[16:50]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég nota tækifærið til þess að þakka hv. þingmönnum fyrir þær umræður sem hafa átt sér stað um þetta frv. allshn. um breytingar á skaðabótalögum. Ég vil líka nota tækifærið til þess að ítreka að það er öll allshn. sem flytur þetta frv. og stendur að þessu máli og í allshn., þar sem eru níu hv. þingmenn og áheyrnarfulltrúi, eru fulltrúar allra stjórnmálaflokka á þinginu.

Ég bendi líka á það og virðist vera full ástæða til þess að rifja það upp að unnið hefur verið mjög ítarlega að þessu máli af hálfu nefndarinnar. Það er ekki að ástæðulausu sem nefndin kemst að þessari niðurstöðu. M.a. hafa ábendingar hv. þingmanna, sem hafa komið fram í umræðunni, verið ræddar fram og til baka.

Ég tel líka að það komi skýrt fram í greinargerð með þessu frv. og í framsögu minni áðan hvers vegna ekki er farið að tillögum þeirra Gests og Gunnlaugs í þessu frv. Þá var minnst á það áðan af hálfu hv. þm. Bryndísar Guðmundsdóttur og talað um áróðursherferð tryggingafélaganna gegn þessum tillögum. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að lesa aðeins upp úr umsögnum sem eru einungis smábrot af öllum þeim pappírum sem við höfum haft til skoðunar í nefndinni út af málinu til að sýna hve skiptar skoðanir eru á þessu máli og hvað bæði menn, félagasamtök og stofnanir vilja leggja áherslu á í þessu sambandi og það er ekki svo einfalt mál. Í lok umsagnar Alþýðusambands Íslands segir t.d., með leyfi virðulegs forseta:

,,Að lýstu framangreindu telur ASÍ þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögunum til hagsbóta fyrir tjónþola og mælir því með að skaðabótalögunum verði breytt í samræmi við þær. Af hálfu ASÍ er þessi afstaða fyrst og fremst byggð á því að sambandið unir ekki bótakerfi sem ekki tryggir jafnræði þeirra sem fyrir tjóni verða. Á hinn bóginn telur ASÍ algerlega óásættanlegt að breytingar á skaðabótalögunum verði til að hækka iðgjöld tryggingafélaganna. Leiði breytingar þær sem hér eru lagðar til til slíkrar hækkunar iðgjalda er óhjákvæmilegt að leitað verði leiða til að draga úr kostnaði á móti.`` Fulltrúar Alþýðusambandsins, sem komu til viðtals við nefndina tóku skýrt fram fyrirvara hvað þetta atriði snerti.

Þá vil ég líka fá að lesa stuttlega upp úr áliti Vinnumálasambandsins, en þar kemur fram í lok umsagnar: ,,Vinnumálasambandið beinir því þeim eindregnu tilmælum til allshn. Alþingis að þetta frv. verði lagt til hliðar,`` þ.e. þetta frv. tvímenninganna, ,,fengnir verði viðurkenndir fræðimenn til að gera úttekt á skaðabótalögum, t.d. á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands. Ef hún gerir tillögur til breytingar á skaðabótalögunum, verði Þjóðhagsstofnun eða Hagstofa Íslands beðnar um að meta kostnaðaráhrif þeirra lagabreytinga.``

Þá segir í lok umsagnar frá Neytendasamtökunum: ,,Telja Neytendasamtökin nauðsynlegt að allshn. Alþingis gangist fyrir því nú þegar að sett verði á fót nefnd til að skoða þetta mál heildstætt og miðað við það að íslenskir neytendur verði ekki verr settir hvort heldur varðandi tjónauppgjör eða iðgjaldatryggingar skyldutrygginga en er í nágrannalöndum okkar. Nefndin þyrfti einnig að hafa það verkefni að endurskoða skaðabótalögin með tilliti til þeirrar niðurstöðu sem nefndin mun komast að í þeim samanburði.``

Það kom líka skýrt fram af hálfu gesta sem komu til nefndarinnar frá Neytendasamtökunum að þeir voru með fyrirvara við þetta mál þannig að þeir treystu sér ekki til þess að meta málið fyrr en séð væri hvaða fjárhagslegar afleiðingar það hefði að leggja til slíkar breytingar sem fólust í tillögum tvímenninganna. Þetta eru aðeins nokkur dæmi af öllum þeim álitaefnum sem allshn. hefur þurft að fást við í vinnu sinni að þessu máli.

Ég rifja líka upp minnisblað sem fulltrúar Lögmannafélagsins komu með á fund nefndarinnar vegna þess að verið er að tala um allar þær umræður sem hafa átt sér stað í þjóðfélaginu um skaðabótalögin og hvort þurfi að breyta þeim en þar leggja þeir áherslu á að það þurfi að koma til lágmarksbreytingar á lögunum nú þegar og nefna sérstaklega til breytingar á stuðlinum og breytingar eins og nefndin leggur til varðandi 8. gr., þ.e. um þann þröskuld sem hefur verið á miskabótum. Vafalaust er það svo að menn hefðu viljað sjá þann stuðul hærri en allshn. leggur til en eins og ég hef sagt áður eru mjög margvísleg sjónarmið sem liggja þarna að baki. Þar að auki vil ég nefna að allshn. leggur til í bráðabirgðaákvæði að nefnd fari í að endurskoða lögin og það er ákveðið tímamark sem þessi nefnd hefur. Eins og ég sagði áðan í framsögu vonast ég til þess að sú vinna fari mjög fljótt af stað og við getum fengið þannig niðurstöður úr þeirri vinnu að það muni ríkja sátt um þetta mál í þjóðfélaginu og ekki veitir af. Auðvitað gerum við okkur alveg grein fyrir því, þingmenn á hinu háa Alþingi, að tjónþolar í þjóðfélaginu eru óskilgreindur hópur, en ekki einhver hagsmunahópur sem hefur talsmenn fyrir sig. Að sjálfsögðu gerum við okkur grein fyrir ábyrgð okkar í þeim efnum.

Vegna þess að talað var um jafnréttishlið þessara mála vil ég minnast á að það átti sér stað þó nokkur umræða um slíkt í þjóðfélaginu, á síðasta sumri og í haust, að m.a. var talað um dóm sem féll í undirrétti á síðasta ári varðandi slys en það slys átti sér stað fyrir gildistöku skaðabótalaganna. Það er búið að leiðrétta þetta ástand, þ.e. 8. gr. skaðabótalaga nær yfir þetta núna. Það er enginn greinarmunur gerður á kynjum. Það breytir því ekki að það er ákveðið launamisrétti í þjóðfélaginu en á það er líka bent í umsögn frá Jafnréttisráði. Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að gera grein fyrir því sem þar segir:

,,Það er álit ráðsins að tillögurnar tryggi að kynferði tjónþola verði ekki eitt af þeim atriðum sem lagt verði til grundvallar við ávörðun bótafjárhæðar eins og tíðkast hefur. Kynferði mun þó áfram hafa áhrif á bótafjárhæð á meðan munur er á launum í hefðbundnum starfsgreinum kvenna og karla. Við því þarf hins vegar að bregðast á öðrum vettvangi.``

Það er náttúrlega mjög mikilvægt að menn hafi þetta í huga.

Að lokum ítreka ég, virðulegi forseti, þakkir til hv. þingmanna fyrir þessar umræður. Sérstaklega ítreka ég þakkir til nefndarmanna í allshn. sem hafa unnið mjög ötullega að málinu og hafa náð þeirri niðurstöðu sem birtist í frv. sem liggur nú fyrir hinu háa Alþingi. Ég vona svo sannarlega að þingmenn taki málinu vel þannig að það geti skapast sátt um það í þjóðfélaginu.