Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 17:37:33 (4009)

1996-03-18 17:37:33# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[17:37]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið hv. 4. þm. Reykn. sem lúta að skráningarmálum og rétti sjúklinga í þeim efnum. Ég tel að það sé ýmislegt í þessu frv. sem er til bóta en ég saknaði þess að hvorki hún né hæstv. ráðherra drap á það sem er aðalatriði fyrir sjúklinga nú til dags. Það er að það séu sett inn í lög um réttindi sjúklinga ákvæði um að það sé bannað að skattleggja þá eftir að þeir koma inn á spítalana og að leggja á þá sérstök gjöld. Þannig að ég tel að í lögum af þessu tagi, ef þetta yrði að lögum, ætti að setja ákvæði um að það sé algerlega óheimilt að taka skatt af sjúklingi eftir að hann er kominn inn á heilbrigðisstofnunina. Þetta tel ég undirstöðuatriði og mikilvægt að halda því til haga og áskil ég mér allan rétt til að flytja um það breytingartillögu á síðari stigum málsins að hér verði algerlega tekið af skarið þannig að sjúklingum verði sem mest er kostur á hlíft við of skattaglöðum stjórnvöldum sem eru aðalvandamálið í dag þar sem stjórnvöld eru alltaf að láta sér detta í hug að skattleggja sjúklinga.

Varðandi orðalag á einstökum þáttum frv. sé ég að aðalvandinn er að sumu leyti sá að menn hafa verið að glíma við að þýða upp úr öðrum textum. Það er út af fyrir sig fróðleg ábending sem kemur þarna frá hv. 1. þm. Vestf. sem var mjög mærður í fjölmiðlum um helgina og með hliðsjón af því tel ég fulla ástæðu til að taka mark á hans frammíkalli umfram annarra manna.