Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 17:39:28 (4010)

1996-03-18 17:39:28# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[17:39]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég saknaði þess að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir svaraði ekki hv. þm. Svavari Gestssyni. Ég minnist þess að það var einmitt hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem ein allra þingmanna Framsfl. hefur lýst yfir stuðningi við tillögur sem ganga þvert á það sem hv. þm. Svavar Getsson var að tala um. Þingmaðurinn er nefnilega þeirrar skoðunar að það eigi að skattleggja sjúklinga og hefur lýst því margsinnis yfir. Hún vill að þeir borgi matarkostnaðinn inni á sjúkrahúsum.

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir afar lærða og djúpa yfirferð um þetta mál. Nú er það svo að ræða hæstv. heilbrrh. var óvanalega góð og yfirgripsmikil, en mér sýnist að ræða hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hafi verið sýnu yfirgripsmeiri og má vera að hæstv. ráðherra megi taka að verja sitt sæti. Ég sé að hér kann að vera komin upp einhvers konar keppni innan Framsfl. um stól heilbrrh. En við förum ekkert frekar út í það, enda sé ég að aðstoðarheilbrigðisráðherrarnir báðir eru mættir. Herra forseti, það sem mér þótti gott í ræðu hv. þm. var yfirferð hennar um hvernig skyldi fara með trúnaðarupplýsingar og sjúkraskrár. Margt af því sem hún sagði opnaði augu mín fyrir ýmsu, en það sem ég náði ekki alveg og var kannski vegna þess að ég hafði ekki skilningarvitin nægilega uppi við, var það hver afstaða hennar sjálfrar er til þeirra ákvæða sem koma fram í frv. Á að opna skrárnar fyrir sjúklingum eða ekki? Ég var ekki alveg klár á því. Mér finnst þetta vera prinsippatriði og vildi gjarnan að hv. þm. hreinsaði allan efa minn í þessum efnum.