Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 17:41:15 (4011)

1996-03-18 17:41:15# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[17:41]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég hef verið talsmaður þess að taka upp matargjöld, þjónustugjöld. Mér finnst eðlilegt að þeir sem leggjast inn á sjúkrahús greiði fyrir þann mat sem þeir borða þar og þá er ég að tala um að undanþiggja þó nokkra hópa sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér. En ég hef verið talsmaður þess að taka upp slíkt þjónustugjald, það er alveg hárrétt.

Það er hins vegar engin keppni á milli okkar hæstv. heilbrrh. hér. Mér þykir hún standa sig afar vel í starfi. Ég styð hana og hennar stefnu og á auðvitað mikinn hlut í þeirri stefnu sem hæstv. heilbrrh. fylgir þannig að við erum algerlega samstiga.

Varðandi það hvort opna eigi sjúkraskrár afturvirkt eða ekki, þá tel ég að það eigi að gera það, m.a. vegna þess hvernig hæstaréttardómurinn féll, sá nýlegi sem greint er frá í greinargerð frv. Hann féll sjúklingi í vil, það mátti skoða sjúkraskrár afturvirkt. Reyndar kom krafan fram um það fyrir 1990 og þá stóð ekkert um að sjúkraskrárnar væru lokaðar. Það er því spurning hvort dómurinn féll vegna þess að krafa viðkomandi kom fram fyrir árið 1990 þegar skránni var lokað, eða hvort krafan kom fram vegna þess að einstaklingar eiga, samkvæmt þeirri meginreglu sem var lögfest árið 1981, rétt á að kynna sér þær upplýsingar sem stjórnvöld hafa skráð um einkahagi þeirra nema mikilvægir almannahagsmunir séu því andsnúnir. Sjálfri finnst mér eðlilegt að sjúklingar eigi að fá að sjá sínar gömlu skrár. En það er spurning hvort læknar verði ekki að lesa þær mjög nákvæmlega yfir til þess að geta aðgreint hvort þar eru upplýsingar eftir þriðja aðila sem þarf að bera undir þá. Það væri mikill skaði ef slíkt ylli áföllum í fjölskyldum, þ.e. af því að það koma viðkvæmar upplýsingar fram í gömlu skránum.