Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:06:20 (4014)

1996-03-18 18:06:20# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir hennar ágætu ábendingu. Mér finnst aðdáanlegt hversu nákvæmlega hún hefur sett sig inn í þetta mál. En eins verð ég að geta í þessari umræðu sem mér þykir miður. Það er þetta: Ég stend henni ekki jafnfætis í umræðunni vegna þess að ég er stjórnarandstæðingur. Ég hef ekki fengið þessi drög til yfirlestrar, enginn hefur komið þeim drögum í mínar hendur sem hún er að vísa hér í. Það er ekki nokkur maður í stjórnarandstöðunni sem ég þekki sem hefur þau. Ég verð að segja að þegar við erum að ræða jafnmikilvægt mál og þetta, finnst mér það fjandi hart, herra forseti, að einhverjir meðlimir stjórnarliðsins hafi undir höndum drög að siðareglum landlæknisembættisins um hvernig eigi að hjálpa dauðvona sjúklingum að ljúka lífi sínu með reisn en við hin höfum ekkert um þetta að segja. Við getum ekki tekið þátt í þessari umræðu vegna þess að við höfum þetta ekki. Þetta vildi ég að kæmi fram. Ég get ekki tekið þátt í þessari umræðu, sem að öðru leyti er fróðleg, við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur vegna þess að ég þekki ekki þessi drög. Og ég hefði talið að drög af þessu tagi væru jafnvel trúnaðarmál áður en kæmi til lokaákvörðunar um hvernig þau ættu að vera.

Herra forseti. Að því er varðar biðlistana þykir mér miður að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir telur óráðlegt að velta því fyrir sér hvort eigi að setja svona í lög. Það má vel vera að úti í löndum hafi komið í ljós að það séu ekki föng til þess. Ég segi það hins vegar að eini bletturinn á íslenska heilbrigðiskerfinu, sem er engri sérstakri ríkisstjórn að kenna, eru biðlistarnir. Þeir eru hneisa fyrir íslenska velferðarkerfið. Sjálfur er ég á þeim aldri sem flestir kalla aldurinn besta því þá er heilsan enn góð og menn þurfa ekki að leita til heilbrigðiskerfisins vegna hrörnunar. En ég get ekki ímyndað mér neitt verra en að þarfnast mjög sárlega einhverrar bæklunaraðgerðar og þurfa að bíða eftir henni, ekki í eitt ár ekki í tvö ár heldur þrjú ár. Það eru brot á mannréttindum eins og við skiljum þau í dag. Að þessu verður að vinda bug.