Réttindi sjúklinga

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:29:01 (4018)

1996-03-18 18:29:01# 120. lþ. 109.9 fundur 388. mál: #A réttindi sjúklinga# frv., 199. mál: #A læknalög# (samþykki sjúklings til aðgerðar) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:29]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikið rétt í því sem hv. þm. sagði. Ég var aðeins að velta því upp hvort aðrar leiðir væru færar en þær að koma upp þessu umboðsmannakerfi en vissulega getur það skilað miklum árangri. Ég held t.d. að eftir því sem ég hef lesið um umboðsmenn jafnréttismála á Norðurlöndum þá hafi þau embætti verið mjög til góðs. Við höfum reynslu af því hvaða áhrif umboðsmaður Alþingis hefur haft. Þetta er ein aðferð til þess að skýra boðleiðirnar á milli valdhafa og fólksins og það getur auðvitað mjög oft komið í veg fyrir óþarfa málaferli og flóknar deilur. Úr því að þingmaðurinn nefndi það flókna kerfi sem við búum við á ýmsum sviðum má minna á almannatryggingakerfið því ef eitthvað er illskiljanlegt eða óskiljanlegt í stjórnkerfi okkar hygg ég að það sé almannatryggingakerfið. Það mætti bæta úr því hvað varðar umboðsmann og upplýsingar. En ég velti þessu eingöngu upp, ég er alls ekki að mæla gegn því að þessi leið sé farin.