Köfun

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:47:10 (4022)

1996-03-18 18:47:10# 120. lþ. 109.11 fundur 148. mál: #A köfun# (heildarlög) frv. 31/1996, Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:47]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá samgn. um frv. til laga um köfun á þskj. 700 ásamt breytingartillögum á þskj. 701 við sama frv.

Megintilgangurinn með því frv. sem hér er til umræðu er í fyrsta lagi að tryggja betur öryggi kafara, samanber athugasemdir í frv. þar sem talað er um að tryggja eftir föngum að kafari sakir vanhæfni eða kunnáttuleysis færi sjálfum sér eða öðrum ekki að voða og í öðru lagi að skýra betur hlutverk kafara við þeirra störf.

Hugtakið köfun er rækilega skýrt í frv. Það merkir í lögum þessum þær athafnir manna sem fara fram undir yfirborði vatns eða sjávar þar sem líkaminn er undir meiri þrýstingi en sem nemur 50 hektópaskölum (50 mbar) yfir loftþrýstingi á yfirborði jarðar og notast er við tæki sem eru hluti af viðurkenndum köfunarbúnaði. Nú mun einhverjum kannski þykja sem óþarfi sé að skilgreina þetta hugtak sérstaklega í lögum en þá vil ég vekja athygli á þeim upplýsingum sem fram koma í athugasemdum við 2. gr. Þar er bent á að samkvæmt orðalagi núverandi 2. gr. laga um kafarastörf megi ætla að undir þau falli líka áhafnir kafbáta og aðilar sem nota reykköfunarbúnað. Það sjá auðvitað allir að við svo búið má ekki standa og nauðsynlegt er þess vegna að skilgreina þetta hugtak.

Nú veit ég ekki hvort þingheimur allur, sem hlýðir á mál mitt, viti hvað hugtakið 50 hektópasköl eða 50 millibör yfir loftþrýstingi á yfirborði jarðar þýði en það mun þýða á mæltu máli að með hugtakinu köfun sé átt við það að fara 50 sm undir yfirborð vatnsins en vel að merkja eingöngu þegar notast er við tæki sem eru hluti af viðurkenndum köfunarbúnaði en hugtakið köfunarbúnaður er líka rækilega skilgreint í lögum þessum.

Virðulegi forseti. Samgn. fór rækilega yfir þetta mál og fékk á sinn fund lögfræðinga samgrn. þá Helga Jóhannesson og Jósef Þorgeirsson, Kristbjörn Óla Guðmundsson frá Slysavarnafélagi Íslands og Auðun F. Kristinsson, formann Félags ísl. kafara. Nefndin fékk enn fremur skriflegar athugasemdir frá Félagi ísl. kafara, Slysavarnafélagi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands, Siglingamálastofnun og Landssambandi ís. útvegsmanna.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með nokkrum breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þskj. Þar er m.a. kveðið á um að sett skuli inn ákvæði sem gera sjálfboðaliðum sem þiggja ekki laun fyrir köfunarstörf sín kleift að starfa samkvæmt starfsreglum þeirra sem samtök þeirra skulu setja en ráðherra samþykkja. Hér er m.a. átt við kafara sem starfa á vegum Slysavarnafélags Íslands en Slysavarnafélag Íslands hefur sett fram mjög skýrar og skilmerkilegar reglur um starfsemi kafara sinna.

Í öðru lagi er lögð til breytingartillaga þar sem kveðið er á um að nánari reglur skulu settar um áhugaköfun og heimild fyrir ráðherra til setja nánari reglur um skilyrði fyrir viðhaldi réttinda samkvæmt köfunarskírteini og enn fremur um heimild hinnar nýstofnuðu Siglingastofnunar Íslands til gjaldtöku fyrir eftirlit, útgáfu og endurnýjun köfunarskírteina.

Í þriðja lagi er lagt til að skýrt verði kveðið á um að það séu innflytjendur eða þeir sem smíða köfunarbúnað sem þurfa að fá viðurkenningu Siglingastofnunar fyrir búnaðinum. Ef vottorð liggur fyrir frá viðurkenndri prófunarstofu um að búnaður sé í samræmi við staðla og reglur er það fullnægjandi.

Loks er ákvæði sem skiptir nokkru máli og það er hvernig með skuli fara ef slys eða óhöpp verða við köfun. Þar er um að ræða grundvallarbreytingu frá frv. Í brtt. samgn. er gert ráð fyrir því að þegar slys við köfun á sér stað skuli það tilkynnt lögreglu í hlutaðeigandi umdæmi og hún annast rannsókn á orsökum slíkra slysa. Síðan er lagt til að sérfróðir menn verði kallaðir til við rannsóknina og að fulltrúi Siglingastofnunar Íslands skoði búnaðinn.

Virðulegi forseti. Undir nefndarálitið rita samgöngunefndarmennirnir Einar K. Guðfinnsson, Magnús Stefánsson, Egill Jónsson, Stefán Guðmundsson, Kristján Pálsson, Ragnar Arnalds og Guðmundur Árni Stefánsson. Árni Johnsen og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Bryndís Guðmundsdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.