Skaðabótalög

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 13:36:35 (4027)

1996-03-19 13:36:35# 120. lþ. 110.1 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, SvG (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[13:36]

Svavar Gestsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er satt að segja að verða dálítið umhugsunarefni hvað alvarleg og þung og oft flókin mál fara hratt í gegnum þingið. Það hefur komið fyrir aftur og aftur á undanförnum missirum að mál af þessu tagi hafa verið afgreidd of hratt þannig að það hefur orðið að samþykkja breytingarfrv. mjög skömmum tíma eftir að viðkomandi mál voru gerð að lögum. Þess vegna held ég að það sé óhjákvæmilegt að leggja á það áherslu að nefndin fái þetta mál til meðferðar á ný í nafni vandaðra vinnubragða Alþingis. Fyrir þinginu liggja breytingartillögur um þrjú efnisatriði frv. og auk þess hafa komið fram hugmyndir um frekari breytingar. Þess vegna held ég að það sé alveg óhjákvæmilegt að fara fram á það í fullri vinsemd við hv. þingnefnd að hún skoði málið aftur með hliðsjón af fluttum og boðuðum breytingartillögum. Ég tel að það sé ekki hægt að láta formann nefndar sem flytur mál um það að hafna beiðni af þessu tagi. Þess vegna skora ég á þingheim að fallast á mína tillögu um að málið fari á ný til allshn.