Skaðabótalög

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 13:41:19 (4031)

1996-03-19 13:41:19# 120. lþ. 110.1 fundur 399. mál: #A skaðabótalög# (margföldunarstuðull o.fl.) frv. 42/1996, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að það væri mjög hæpið fordæmi algjörlega burt séð frá efni þessa frv. ef þingnefnd neitaði að taka við því verkefni að fara yfir þingmál eftir 1. umr. Sú staðreynd að nefndin flytur málið og hefur rætt það og skoðað eitthvað áður en 1. umr. fór hér fram er óviðkomandi því að hin venjulega þinglega meðferð mála er sú að eftir 1. umr. og þau sjónarmið sem þar koma fram tekur þingnefnd málið og fer yfir það og skoðar. Ég held að það sé beinlínis andstætt hugsuninni og þeim eðlilega gangi sem mál hafa hér í gegnum þingið ef ekki verður brugðist vel við óskum um að í kjölfar umræðna og sjónarmiða sem hér koma fram við 1. umr., þar sem þingmenn sem ekki sitja í viðkomandi nefnd eiga kost á að láta slíkt koma fram, að vísa málinu til nefndar. Það er mikill misskilningur hjá hv. nefndarmönnum, formanni og öðrum sem hér koma upp og líta á það sem gagnrýni á hv. þingnefnd eða vinnuna þar þegar svona ósk er sett fram. Það er alls óviðkomandi því að hér komu fram ýmis sjónarmið við 1. umr. málsins. Hugmyndir um breytingar á málinu voru reifaðar og ég held að það væri þingræðislega mjög óeðlilegt og hv. nefnd setti sig í annarlegar stellingar gagnvart slíkum beiðnum ef hún brygðist ekki vel við því að taka við málinu.

Herra forseti. Ég minni einnig á að þegar breytingar voru gerðar á þingsköpum Alþingis og Alþingi tók að starfa í einni málstofu urðu í kjölfarið talsverðar umræður um það hvernig ætti að tryggja að mál fengju eftir sem áður jafnrólega og yfirvegaða skoðun og tveggja deilda kerfið hafði í för með sér. Þá varð það m.a. niðurstaða að kæmu fram óskir um að nefndir tækju mál til skoðunar á nýjan leik eftir 2. umr. þá bæri að verða við slíkum óskum. Vegna hvers? Vegna þess að það kom að nokkru leyti í staðinn fyrir þá tvöföldu yfirferð sem mál fengu áður í deildum. Þannig að enn frekar með vísan til þess sem nú eru starfshættir Alþingis, er stætt á því að þingnefnd sem hefur undirbúið mál neiti að taka það til frekari skoðunar? Það er alveg gjörsamlega út úr korti þannig að ég hvet hv. formann allshn. til að endurskoða afstöðu sína og taka vel við því að nefndin sé beðin um frekari vinnu af þessu tagi. Væntanlega er hv. þingnefnd ekki það illa á sig komin að hún geti ekki lagt nokkrar klukkustundir í viðbót í yfirferð á þessu máli.