Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 14:42:53 (4036)

1996-03-19 14:42:53# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[14:42]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að mótmæla því hvernig hæstv. fjmrh. setur hlutina upp. Það er tæplega hægt að kalla það annað en hroka og lítilsvirðingu í garð samtaka opinberra starfsmanna þegar hæstv. fjmrh. fer um viðbrögð þeirra við þessu frv. þeim orðum sem hann gerði áðan. Hæstv. ráðherra lætur í öðru orðinu í það skína að ríkisstjórnin vilji hafa gott samstarf og samráð við opinbera starfsmenn og verkalýðshreyfinguna um breytingar mála á vinnumarkaði. En í hinu orðinu ræðst hæstv. ráðherra héðan úr ræðustóli á Alþingi á samtök opinberra starfsmanna fyrir viðbrögð þeirra við þessu frv. og talar þar um áróðursherferð. Það var ekki hægt að skilja ráðherra öðruvísi en svo að hann teldi stórlega ámælisvert hvernig opinberir starfsmenn hefðu brugðist við.

Nú er það svo, herra forseti, að ég veit ekki betur en hæstv. ráðherra sjálfur hafi þegar lagt upp í áróðursherferð fyrir sjálfan sig og stefnu ríkisstjórnarinnar í þessu máli og það fyrir almannafé. A.m.k. fékk ég bæklingsóféti inn um lúguna sem ég veit ekki betur en fjmrh. sé ábyrgðarmaður að þar sem er rekinn skefjalaus áróður fyrir stjórnarstefnunni í þessu máli. Er það þá ámælisvert, hæstv. fjmrh., að samtök opinberra starfsmanna reyni að bera hönd fyrir höfuð sér og haldi fundi með félagsmönnum sínum úti um landið? Er það orðið saknæmt að menn tali yfirleitt á móti stjórnarstefnunni ef þeir eru ekki sáttir við hana? Ég held að hæstv. fjmrh. nái ekki langt og nái ekki upp eðlilegum samskiptum eða góðu samstarfi við einn né neinn með svona samsetningu mála. Ég mótmæli því hvernig fjmrh. setur hlutina upp við upphaf umræðunnar og skora á hann að draga þessi orð til baka og endurskoða afstöðu sína til samskipta við opinbera starfsmenn. Ef hann á að eiga einhverja minnstu von um það að ná árangri í þessum málum þá held ég að hæstv. ráðherra þurfi að gerbreyta um vinnubrögð.