Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 14:47:47 (4038)

1996-03-19 14:47:47# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[14:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er virðingarvert að hæstv. fjmrh. reynir aðeins að draga í land. Ég gerði efnislega athugasemd, fullkomlega efnislega athugasemd við það sem hæstv. ráðherra sagði um áróðursfundaferðir samtaka opinberra starfsmanna. Nú kvartar hæstv. ráðherra undan því, að mér skildist, að það hefði verið gagnrýnivert að ekki hefðu bæði sjónarmið fengið að koma fram á fundum samtaka opinberra starfsmanna. Lítur hæstv. ráðherra svo á að BSRB megi ekki halda fundi nema útskýra jafnframt málstað ráðuneytisins? Ég geri engar athugasemdir við það þó sjónarmið hæstv. ráðherra og stefna ríkisstjórnar komi fram. Ég hef reyndar ekki orðið var við annað en að hæstv. ráðherra sé í fjölmiðlunum á hverjum einasta degi og hafi yfirburðastöðu til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Aðrir aðilar þurfa að kosta það dýrum dómum, halda fundi og kaupa sér auglýsingar til þess að reyna að reisa rönd við ofurvaldi ríkisstjórnar og ráðherra í gegnum fjölmiðlana sem allir þekkja. Þannig að þar hallar ekki svo á.

Hæstv. ráðherra gerði beinlínis athugasemdir við það að samtök opinberra starfsmanna hefðu yfir höfuð reynt að verja hendur sínar í þessu máli. Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að slíta viðbrögð samtaka opinberra starfsmanna úr samhengi við það hvernig hæstv. ráðherra hefur unnið að málinu. Það er sem sagt samráð eftir á sem hæstv. ráðherra ætlast til að verkalýðshreyfingin sé boðin og búin að eiga við hann. Fyrst semur hæstv. ráðherra frumvörpin, ákveður stefnuna, keyrir þau út og þá eru menn til í samráð. Það er svona samráð eftir á sem hæstv. ráðherra telur eðlilegt að eiga við samtök opinberra starfsmanna eða verkalýðshreyfinguna og ef menn eru ekki tilbúnir í það, ef menn lýsa óánægju með slíkt, þá eru það áróðursherferðir og áróðursbrögð og óeðlilegt fundahald að mati hæstv. ráðherra eftir því sem hér kom fram.

Það að bæklingurinn hafi verið 4. árgangur eru náttúrlega stórmerk tíðindi. Það breytir í grundvallaratriðum eðli hans að þetta skuli hafa verið 4. árgangur af einhverju í fjmrn.